Allnokkuð er um að því sé klínt á alþingismenn að þeir séu upp til hópa tækifærissinnaðir, lítt gefnir fyrir heiðarleika og sjái ekkert athugavert við að stunda bræðravíg af miklum móð. Um þetta finnast vitanlega alltaf einhver dæmi. Svik þingmannsins Birgis Þórarinssonar við flokk sinn korteri eftir kosningar eru til dæmis afar ómerkileg gjörð sem á engan hátt er hægt að réttlæta. Á sama tíma sjáum við formenn þriggja flokka vinna að því að koma saman ríkisstjórn. Þar byggist vinnureglan á gagnkvæmu trausti og heiðarleika. Það er uppörvandi að verða vitni að því.

Einhverjar raddir reyna með öllum ráðum að leiða formann Framsóknarflokksins í freistni með því að minna reglulega á hversu vel hann myndi taka sig út í hlutverki forsætisráðherra í ríkisstjórn þar sem Katrín Jakobsdóttir og flokkur hennar væru víðs fjarri. Ekki verður séð að formaður Framsóknarflokksins leggi við hlustir. Hann virðist ekki ætla að láta hégómann sigra skynsemina og heiðarleikann.

Nú skal ekkert fullyrt um að formenn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks nái saman á ný í ríkisstjórn, þótt úrslit kosninganna hafi sýnt að þjóðin vill það. Vel má vera að málefnaágreiningur reynist of mikill. En þá getur þjóðin samt verið viss um að formennirnir lögðu sig fram við að ná samkomulagi og tvöfeldni var ekki ríkjandi.

Flestir sjá fremur fljótlega í gegnum stjórnmálamenn sem líta á það sem óhjákvæmilegan hluta af starfi sínu að iðka tækifærismennsku og stunda stöðugar upphrópanir. Með tímanum fer syfja og leiði að grípa stóran hóp kjósenda í hvert sinn sem þessir stjórnmálamenn stíga fram, yfirleitt geltandi af vandlætingu, og ætlast til að vera teknir alvarlega. Yfirvegun og ró myndi skila þeim meiri árangri.

Að sleppa tökunum

Nú er kominn tími til að sóttvarnalæknir sleppi tökunum og hætti að skrifa minnisblöð. Yfirlýsingar hans um komandi flensutíma og nauðsynleg höft hljóma vægast sagt furðulega. Íbúar þessa lands hafa fram að þessu lifað með flensu án þess að kippa sér upp við það. Og þótt flensutímabil auki álag á heilbrigðiskerfið þá er galið að ætla sér að takmarka mannréttindi fólks vegna þess.