Kári Stefánsson, læknir og forstjóri, birti á dögunum grein í Fréttablaðinu þar sem hann kallaði Vilhjálm Árnason, prófessor í heimspeki, rugludall. Tilefnið er ný lög um vandaða starfshætti, í vísindum, sem Kári segir að Vilhjálmur standi fyrir. Í þeim skorti skilgreiningu á því hvað teljist vera „heiðarleg vinnubrögð“ í vísindum. Heiðarleiki sé hins vegar „eini samnefnari vandaðra vinnubragða“ í vísindum og ástæða sé til að brýna slíkt fyrir fleirum, til að mynda útgerðarmönnum. Kári útlistar hvernig „mjög öflugt sjálfseftirlit“ vísindasamfélagsins virki og eigin reynslu af því, til dæmis að valinkunnir vísindamenn ritrýni vísindagreinar hver annars fyrir birtingu.
Nokkru síðar birti Kári aðra grein í Fréttablaðinu, þá undir fyrirsögninni Landráð? og vísar til skýrslu Verðlagsstofu skiptaverðs um makríl og samanburð á skiptaverði hér og í Noregi. Hann sakar útgerðarmenn um að hlunnfara sjómenn og sveitarfélög, stela undan skatti með því að selja eigin félögum erlendis makríl á undirverði og stunda peningaþvætti ofan á allt saman. Niðurstaðan er að útvegsmenn hafi stolið 300 milljörðum króna á sjö árum! Fleiri fráleitar fullyrðingar er að finna en byrjum á þessari. Meira um hitt síðar.
Vel færi á því að greinarhöfundur hefði sjálfur að leiðarljósi heiðarleika í anda sjálfseftirlits vísindasamfélagsins við þessi skrif sín og sérfróða menn til að ritrýna skrif sín. Hann gefur sér forsendur eða kann ekki að reikna út frá staðreyndum en hikar samt ekki við að draga gífuryrtar ályktanir af öllu saman. Slík vinnubrögð teljast vonandi hvorki sérlega heiðarleg né vísindaleg – og um það erum við Kári væntanlega sammála.
Tölur um útflutningsverðmæti makríls eru í gögnum Hagstofu Íslands og tölur um aflamagn hjá Fiskistofu. Hvoru tveggja er aðgengilegt öllum en kallar á heimavinnu. Það flækir málið að hluti makrílaflans endar í bræðslu, bæði skemmdur fiskur og afskurður. Þá stærð þarf að reikna sem afleidda og þeir sem treysta sér ekki til þess en vilja vanda til verka leita þá aðstoðar sér fróðari manna.
Ég aflaði gagnanna og í ljós kom að útflutningsverðmæti makríls frá Íslandi nam tæplega 200 milljörðum króna á árunum 2006 til 2018, á verðlagi hvers árs. Þau ár sem Kári miðar við nam útflutningsverðmætið liðlega 130 milljörðum króna og heildaraflinn var liðlega ein milljón tonna.
Þetta jafngildir um 130 krónum að meðaltali á hvert kíló eða um 120 japönskum jenum á kílóið, sem er meðalverð þess makríls sem landað er. Ef við bætum við 300 milljörðum króna, sem Kári svo smekklega staðhæfir að útgerðarmenn hafi stolið, ætti útflutningsverðmætið að vera 430 milljarðar króna og meðalverð um 430 krónur á kíló eða jafnvirði nær 390 jena.
Með nákvæmari heimavinnu, gúggli og kannski símtali við japanskan vin, hefði Kári getað fengið upplýsingar um makrílverð í Japan. Þá vissi hann nú að verð á makríl í stærri og verðmeiri flokkum sveiflaðist á tímabilinu um 160-360 jen á kílóið. Japanir kaupa mikið magn á lágu verði og halda birgðir en kaupa sem minnst á háu verði. Ég hef yfirlit um verðþróun en ekki magn en tel líklegt að meðalverð sé 210-270 jen.
Þegar hér er komið sögu blasir við að Kári gefur sér 50–80% hærra afurðaverð en kröfuhæsti markaður veraldar greiðir fyrir stærsta og besta makrílinn! Útreikningar mannsins eru því hreint og klárt rugl en ég læt mér samt ekki sæma að kalla hann rugludall. Það er orðbragð sem aðrir telja brúkhæft í opinberri umræðu. Sama á við um landráðabrigslin.
Nýlega hlustaði ég á lestur Stefáns Jónssonar, föður Kára, upp úr bók sinni, Að breyta fjalli. Hún er snilldarverk að frásögn og stíl og einkar hlý saga bernskuára höfundar. Ég má til með að vísa til bókarinnar þegar ég segi að ég erfi hvorki fljótfærni né flumbrugang í skrifum Kára frekar en afi hans erfði við Stefán, föður Kára, þegar hann (Stefán) vildi hjálpa til og skaut jarpa gæðingshryssu frá Árnanesi, sem nágranninn átti, í misgripum fyrir jarpan afsláttarklár sem faðir hans hafði keypt til að lóga fyrir heimilið.
Öllum verður eitthvað á í lífinu en flestum er gefið að bæta ráð sitt.