Rauði kross Íslands, Landsbjörg og Háskóli Íslands gegna mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar enda starfa þessar stofnanir í þágu mennta og mannúðar. Það er hins vegar alvarlegur ljóður á ráði þeirra að þær afla sér tekna með aðferð sem nýtir sér spilafíkn og beinlínis elur á henni. Því verður að linna en best fer á því að þessar stofnanir fylgi fordæmi SÁÁ og hætti þessari starfsemi sjálfviljugar. Finna verður aðrar leiðir við að fjármagna þær.

Það ætti að ýta við umræddum samtökum að augljóslega er ríkulegur vilji meðal almennings í landinu til að þarna verði breyting á. Ríflega 85% þeirra sem tóku afstöðu í könnun, sem gerð var fyrir Samtök áhugafólks um spilafíkn á síðasta ári, vilja að spilakössum verði lokað til frambúðar. Um 70% þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni reyndust frekar eða mjög neikvæð gagnvart því að starfsemi í almannaþágu sé fjármögnuð með spilakössum. Á þeim tíma var rekstraraðili kassanna í eigu Rauða krossins, Landsbjargar og SÁÁ. Eins og áður sagði þá kaus SÁÁ að draga sig út úr starfseminni og er ég mjög stoltur af þeirri ákvörðun vina minna hjá samtökunum.

Þegar nánar er skoðað blasir við að lítill en viðkvæmur hópur spilafíkla stendur undir stórum hluta þessarar fjáröflunarleiðar. Þarna er um að ræða hóp veiks fólks sem kallar yfir sig og fjölskyldur sínar miklar hörmungar. Fyrir skömmu var greint frá því að Samtök áhugafólks um spilafíkn hefðu ákveðið að höfða mál gegn Háskóla Íslands. Í lögfræðiáliti sem samtökin hafa látið vinna segir að rekstur spilakassa sé kominn langt út fyrir þá heimild til fjárhættuspils sem Happdrætti Háskóla Íslands er veitt í lögum. Þar segir að Happdrættið hafi ekki heimild til þess að láta annan aðila sjá um reksturinn og að allur ágóði eigi að renna til skólans. Nú er ljóst að Háskóli Íslands ætlar að verjast fyrir dómstólum. Innan Háskóla Íslands starfar sérstök Siðfræðistofnun. Eru sérfræðingar hennar sáttir við hvernig þessari fjáröflun er háttað? Er rétt að beita lagahyggju við lausn siðferðilegra álitamála? Er ekki mál að linni?