Tíðrætt hefur verið um hegðunarvanda barna og ákall um samfélagslega ábyrgð til að sporna gegn vandanum. Snemmtækur stuðningur borgar sig ávallt, því rannsóknir sýna m.a. auknar líkur þess að barnið leiðist út í afbrot og notkun áfengis og vímuefna á unglingsárum ef ekki er brugðist við vandanum snemma á lífsleiðinni. Í nýjum lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna er einmitt kveðið á um að brugðist skuli við með skilvirkum hætti um leið og þörf krefur, sem á við um foreldra/forráðamenn, skóla og aðra sem koma að uppeldi barna.

Árið 2015 hóf velferðarsvið Reykjavíkurborgar markvissa innleiðingu PMTO foreldrafærni sem miðar að því að efla foreldra barna á aldrinum 4-12 ára sem glíma við hegðunarvanda. Aðferðin, sem er gagnreynd, er byggð á sterkum rannsóknargrunni og þróuð af Gerald Patterson og Marion Forgatch og samstarfsfólki við OSLC í Oregon í Bandaríkjunum. Rannsóknarniðurstöður hérlendis og erlendis sýna að aðferðin dregur verulega úr hegðunarvanda barnanna og félagsfærni og námsárangur eykst. Líðan og samskiptamynstur innan fjölskyldunnar styrkist auk fleiri þátta sem sýna bætta aðlögun og velgengni hjá barninu. Í PMTO ríkir sú sýn að foreldrar séu mikilvægustu kennarar barna sinna. Aðferðin er aðlöguð að íslenskum aðstæðum og þjónustan veitt af meðferðaraðilum borgarinnar af mikilli alúð og fagmennsku. Úrræðið er þrepaskipt allt eftir eðli og umfangi vandans. Boðið er upp á einstaklingsmeðferð sem fer fram á heimili fjölskyldunnar eða skrifstofu. Auk þess er veitt 12-14 vikna hópmeðferð þar sem unnið er með foreldrum í hópum. Sé vandinn vægur eða hætta á að barn þrói með sér hegðunarvanda er í boði átta vikna hópnámskeið. Í öllum tilvikum fá foreldrar heimavinnu milli tímanna þar sem þeir æfa styðjandi uppeldisaðferðir í gegnum PMTO verkfærin; fyrirmæli, hvatningu, mörk, lausn vanda, tengsl heimilis og skóla og eftirlit. Auk þess er unnið með leiðir til að efla tilfinningastjórn, virk samskipti og jákvæða samveru og afskipti af barninu. Foreldrar fá símtöl milli funda sem veita stuðning.

PMTO er í boði í öllum borgarhlutum og hjá Barnavernd Reykjavíkur. Við þjónustulok fylla foreldrar út viðhorfsmat þar sem einnig er boðið upp á opinn svarmöguleika. Þar eru svör foreldra m.a. eftirfarandi: „Barnið fylgir betur fyrirmælum“, „ég næ nánari og dýpri tengslum við hana“, „rólegra heimilislíf“, „betri samskipti“, „fjölskyldufundur virkar vel“, „barnið nær sér fljótar niður úr reiðiköstum þegar mörk eru sett“, „börnunum líður betur og ég hef betri tilfinningastjórn“, „barnið virðist öruggara“, „hann sýnir meiri hjálpsemi“, „kemur núna heim á réttum tíma“, „heimanám gengur mun betur“, „eigum fleiri og betri samverustundir sem skapa minningar“, „morgnar og kvöld ganga miklu betur“, „færri árekstrar“, „aukin samvinna og hamingja“, „frábærir kennarar sem sýna skilning“, „allir foreldrar þyrftu að kynnast þessum verkfærum“.

Frá 2015 hefur Reykjavíkurborg veitt foreldrum 320 barna einstaklingsmeðferð og foreldrum 328 barna hópmeðferð. Að auki hafa foreldrar 747 barna sótt foreldranámskeið. Þetta hefur stuðlað að bættum lífsgæðum fjölskyldnanna, sem er það mikilvægasta. Að auki sparast almannafé til framtíðar með inngripi sem þessu, en fyrir um áratug gerðu dönsk félagsmálayfirvöld úttekt á fjárhagslegum ávinningi yfir lífshlaup barns ef PMTO einstaklings- eða hópmeðferð er veitt fyrir 12 ára aldur. Með því að núvirða þær tölur í íslenskum krónum má sjá að nettó fjárhagslegur ávinningur þess að veita foreldrum eins barns einstaklingsmeðferð er um 6,4 milljónir íslenskra króna og nettó ávinningur sérhvers barns sem fær hópmeðferð er um 5,8 milljónir króna. Sparnaður er því um 3,3 milljarðar króna á þessum árum, sem yrði væntanlega enn hærri ef ávinningur þess að sækja foreldranámskeið vegna vægs vanda hjá yngstu börnunum yrði tekinn með í reikningsdæmið. Snemmtæk í hlutun borgar sig því svo sannarlega. Keðjan sem er þjónusta fyrir börn og fjölskyldur hjá Reykjavíkurborg heldur utan um úrræðið. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Reykjavíkurborgar: www.reykjavik.is.