Þessi fleygu orð J. Welsh komu upp í huga minn þegar ég frétti að Dagur B. Eggertsson og hans fólk stæði í málaferlum við dreng með Downs heilkenni vegna þess að hann leitaði réttar síns og vann mál gegn borginni í héraðsdómi. Málið tengdist búsetumálum fatlaðra og drengnum voru dæmdar miskabætur.

Í stað þess að lúta dómnum og nýta hann til góðra verka, áfrýjaði borgin til Landsréttar!

Það er freistandi að velta því fyrir sér hvað fólki gengur til þegar það bregst svona við. Það er að vísu stórvarasamt að velta sér upp úr því hvað gengur á í hausnum á fólki, en ég ætla að láta það eftir mér í þetta sinn.

  1. Veit borgin ekki hve illa hún hefur farið að ráði sínu gagnvart fötluðu fólki? Finnst henni að með þessum dómi sé ómaklega að henni vegið?
  2. Er þetta kannski heimska eins og: „af því bara … af því ég hef rétt á því“?
  3. Er ef til vill hefð fyrir því að áfrýja öllum dómum sem eru borginni í óhag – umhugsunarlaust?
  4. Getur verið að þetta séu viðbrögð unglingsins sem er staðinn að verki og hefur ekki lært að axla ábyrgð á gjörðum sínum og stekkur þess vegna í vörn?
  5. Er möguleiki að þetta sé hrein mannvonska og fordómar í garð fatlaðra? Er hugsanlegt að borginni þykir bara allt í lagi að draga fatlað fólk á asnaeyrunum og bjóða því upp á óbærilega óvissu árum og áratugum saman?
  6. Getur verið að borgin sé hrædd við hugsanlega uppreisn fatlaðra? Heldur borgin að ef hún grípi ekki til varna, muni her fatlaðra rísa upp og krefjast réttar síns?
  7. Snýst þetta um peninga? Óttast borgin að þurfa að greiða fleirum miskabætur?
  8. Er borgin kannski að vinna sér inn tíma? Tíma til að hnoða saman reglum sem gætu haft áhrif á niðurstöðu Landsréttar?
  9. Er þetta sært stolt? Er borgin spæld yfir að hafa tapað málinu?
  10. Getur verið að þeir sem tóku þessa ákvörðun hafi bara enga sómakennd?

Hvernig sem á það er litið eru viðbrögð borgarinnar til skammar. Við sem þekkjum til þessara mála vitum og höfum lengi vitað, að búsetumál fatlaðra eru í klessu og verklagið við úthlutun ömurlegt.

Við höfum líka lengi vitað leyndarmálið sem nú hefur verið afhjúpað, eða það að „biðlistar“ eftir búsetu er kjaftæði. Það eru engir biðlistar, bara biðhít.

Það er ágætt heilræðið sem segir að sé maður kominn ofan í holu þá sé rétt að hætta að grafa. Það á vel við hér. Borgin er í djúpri holu og heldur áfram að grafa. Með því að áfrýja dómi héraðsdóms hefur hún grafið sig enn dýpra og hugsanlega sína eigin gröf.