Í lok síðasta árs skilaði þýska fyrirtækið Fraunhofer skýrslu um samkeppnisstöðu stóriðju á Íslandi þar sem sérstaklega var horft til raforkukostnaðar. Úttektin var gerð að beiðni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Um leið og hægt er að segja að skýrslan sem slík sé um margt ágæt, verður jafnframt að segja að það sé til fyrirmyndar að úttekt hafi yfir höfuð verið gerð á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi. Ýmis jákvæð teikn eru á lofti, líkt og hærra álverð, en aðkoma stjórnvalda virðist nauðsynleg ef ekki á illa að fara. Þúsundir starfa eru undir sem og tugir milljarða í gjaldeyristekjur. Kem nánar að því síðar.
Samkeppnishæft raforkuverð?
Fraunhofer-skýrslan segir okkur að álver voru að greiða fyrir afhent rafmagn (þ.e. með flutningi) árið 2019 í Noregi um $30/MWst og í Kanada um $25/MWst. Þá er réttast að spyrja hvort þessi verð séu í boði hér á landi. Það er ekki að sjá samkvæmt „verðskrá“ Landsvirkjunar sem t.d. var kynnt á ársfundi fyrirtækisins árið 2019. Þar er lágmarksverð $28/MWst auk $6 til Landsnets sem gerir $34/MWst fyrir afhenta orku, um $4-9 hærra en af hent verð til álvera í samkeppnislöndum okkar. Auk þessa ætlast Landsvirkjun til að verðið sé tengt verðbólgu í Bandaríkjunum, ólíkt því sem gerist í þeim löndum sem hér hafa áður verið nefnd. Samningur ISAL er tengdur verðbólgu í Bandaríkjunum og virðist það vera eitt verst geymda leyndarmál Íslands að af hent verð sé um $39/MWst; sem er um 30-50% hærra en verð sem samkeppnisaðilar ISAL greiða í Noregi og Kanada. Það virðist því fjarri að Ísland sé að gefa frá sér raforkuna, þvert á móti virðast verðvæntingar Landsvirkjunar vera óraunhæfar og of háar. Það kann að útskýra að nú er um 7,5% orkunnar laus og óseld. Sú orka myndi t.d. duga til að knýja um 600 þúsund raf bíla.
Ef ISAL verður lokað, hvaða áhrif hefur það á umhverfismál?
Kínverjar hafa lagt undir sig meira en helming allrar álframleiðslu í heiminum. Það má sjá á öllum tölum, en hlutdeild Kína í álframleiðslu var 10% árið 2010 en árið 2019 var hlutdeild þess komin upp í 56%. Þessi þróun er ekki góð þegar horft er til loftslagsmála þar sem f lest álver í Kína eru knúin með kolum, á meðan raforka á Íslandi er framleidd með vatnsafli og jarðvarma. Ýmsir umhverfisskattar hafa auk þess verið lagðir á fyrirtæki í Evrópu, þ.m.t. íslensku álverin, vegna útblásturs á meðan kínverskir framleiðendur þurfa ekki að greiða slíka skatta. Þetta og hár raforkukostnaður hefur gert samkeppnisstöðuna erfiða gagnvart Kína. Það er hins vegar engum jarðbúa greiði gerður ef grænu álveri er lokað á Íslandi, því það eflir framleiðsluna í koladrifnum álverum. Evrópusambandið brást við þessu með ETS-endurgreiðslukerfinu sem, í stuttu máli, skattleggur koladrifin orkuver og niðurgreiðir orku til stóriðju. Á Íslandi eru blessunarlega engin kolaorkuver. Það má því með réttu segja að aukin umhverfisvitund og skilningur stjórnvalda á Íslandi á þeim aðstæðum sem nú eru uppi séu það eina sem geti bjargað framleiðendum hér á landi. Áramótagrein forstjóra Landsvirkjunar virðist taka undir þetta.
Er stefna Landsvirkjunar eigandanum, íslensku þjóðinni, til hagsbóta?
Þegar Landsvirkjun fór í samningaviðræðurnar við ISAL sem leiddu til samningsins sem gerður var árið 2010 var kominn nýr forstjóri, ný stefna, ný verðskrá. Hefur stefnan reynst ásættanleg fyrir þjóðina?
- Tvö kísilver hafa risið með samning við Landsvirkjun í farteskinu, United Silicon og PCC á Bakka. Bæði hafa kostað lífeyrissjóði og íslenska banka tugi milljarða. Báðar verksmiðjurnar eru lokaðar.
- n Samningur Elkem fór í gerðardóm og frá því hefur verksmiðjan verið á skertum af köstum og starfsmönnum hefur verið fækkað.
- n Þeistareykjavirkjun var reist fyrir tugi milljarða króna. Fjárfesting sem ráðist var í samhliða framkvæmdum við kísilverið á Bakka. Virkjunin er því varla í fullri notkun og arðsemi fjárfestingarinnar líklega neikvæð.
- n Gagnaver risu hratt upp en samkvæmt fréttum úr greininni, þ.m.t. frá forstjóra OR, eru þau að færast jafn hratt úr landi.
- n Ekki hefur verið gerður langtímasamningur við álver síðan árið 2010 og fjárfestingar álvera í eigin rekstri fara sífellt minnkandi vegna óvissu í raforkumálum.
- n ISAL keyrir á 85% af köstum og íhugar að loka verksmiðjunni sem mun hafa verulega neikvæð, bæði bein og óbein, áhrif á hátt í tvö þúsund manns. Ef ISAL lokar myndi það kosta þjóðarbúið yfir 60 milljarða í tapaðar gjaldeyristekjur.
- n Annar og þriðji stærstu viðskiptavinir Landsvirkjunar hafa kært meinta markaðsmisnotkun Landsvirkjunar til Samkeppniseftirlitsins.
- n Á meðan fjöldi starfsmanna hjá Landsvirkjun og Landsneti hefur aukist um 37% milli áranna 2009- 2019, hafa á meðan nær engin ný störf verið sköpuð í stóriðju landsins þrátt fyrir að vel yfir hundrað milljörðum króna hafi verið fjárfest í greininni.
Landsvirkjun hefur varið stefnu sína með kjafti og klóm og meðal annars bent á óviðunandi hagnað félagsins. Miðað við punktana hér fyrir ofan ætti það varla að koma nokkrum á óvart að arðsemi félagsins sé óviðunandi. Eins og áður hefur komið fram þá fagna ég framtaki iðnaðarráðherra með úttekt á stöðu stóriðju hér á landi og að í framhaldinu hafi verið ákveðið að fara í úttekt á verðskrá Landsnets. Áhugavert væri að sjá fjármálaráðherra gera slíkt hið sama og skipa úttekt á starfsemi Landsvirkjunar síðustu 10 ár, enda heldur hann á hlutabréfi þjóðarinnar í fyrirtækinu.
Álverið í Straumsvík, Hafnarfirði
Ég starfa í umboði íbúa í Hafnarfirði og mér ber hreinlega skylda til að gæta hagsmuna íbúa og sveitarfélagsins. Í Straumsvík starfa um 500 starfsmenn með ólíka menntun og reynslu, auk fjölda af leiddra starfa. Gjaldeyristekjur álversins eru yfir 60 milljarðar króna á ári. Það er því engum vafa undirorpið að álverið í Straumsvík er samfélaginu hér og landinu öllu ákaflega mikilvægt. Ál snertir okkar daglega líf með ýmsum hætti; m.a. notað í farartæki, byggingar, matvælapakkningar og raftæki. Álverið í Straumsvík hefur verið til mikillar fyrirmyndar í umhverfismálum, m.a. fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að innleiða umhverfisstjórnun skv. ISO14001, er með grænt bókhald og hefur fengið verðlaun umhverfisráðuneytisins fyrir að ganga lengra í umhverfismálum en lög í landinu gera ráð fyrir. Þá er ISAL tæknivæddasta álver landsins og býr til mest verðmætaskapandi vöruna.
Umhverfisvænt ál er framleitt á Íslandi; ál sem ellegar væri framleitt annars staðar. Er gott mál ef 500 einstaklingar missa vinnuna? Er gott mál ef samfélagið verður af milljörðum í sameiginlega sjóði okkar? Samrýmist það heildarmarkmiðum okkar í loftslagsmálum að hvetja til aukinnar álframleiðslu á svæðum sem menga jafnvel tífalt á við það sem gerist hér á landi? Er þörf á að endurskoða stefnu Landsvirkjunar? Eða þarf fyrst að koma til stórtjóns hér í Hafnarfirði?