Í skugga heimsfaraldursins sem hefur geisað um hnöttinn í tæp tvö ár, hefur kraumað annar faraldur undir niðri. Tölur um heimilisofbeldi hafa risið gífurlega síðastliðið ár og margar konur sem nú þegar voru í viðkvæmri stöðu eru í margfalt verri aðstæðum í útgöngubanni margra landa. Nýlega var farið að talað um faraldur byrlana á skemmtistöðum miðbæjarins og í nýrri bylgju #MeToo hreyfingarinnar hefur umræðan um það ofbeldi sem konur búa við opnast á ný og er meira áberandi en nokkurntíma fyrr. Milljónir kvenna á öllum aldri hafa stigið fram og lýst ofbeldi sem konur um allan heim upplifa daglega, allt frá stanslausu áreiti og kynferðislegum athugasemdum, til annarra kynferðisbrota og ofbeldis í nánum samböndum.

Allt of lengi hefur þessi umræða verið töluð fyrir tómum eyrum og okkur sem samfélagi hefur mistekist að bregðast við þessu risavaxna vandamáli sem við stöndum frammi fyrir. Ábyrgðinni hefur endurtekið verið varpað til baka á konur og manni er hugsað til kaldhæðnislegra frasa sem birtust á hliðum strætisvagna fyrir nokkrum árum, í herferð sem gagnrýndi einmitt þetta. Konur þurfa bara að vera duglegri að láta í sér heyra, ...passa að vera ekki einar á ferð, …passa að klæða sig sómasamlega. Hvenær ætlum við að átta okkur á að ofbeldi gegn konum er ekki á ábyrgð kvenna? Með því að varpa ábyrgðinni endurtekið aftur til þeirra sem verða fyrir ofbeldinu erum við að samþykkja það og leyfa því að viðgangast.

Eina leiðin til að berjast gegn ofbeldi er að ráðast að rótinni; samfélagi og viðhorfum sem afsaka ofbeldishegðun og það sem verra er, neitar oft á tíðum að horfast í augu við hana sem veruleika. Það þarf að bregðast við, ekki bara eftir að ofbeldi hefur átt sér stað, heldur að fyrirbyggja að það gerist, til að byrja með. Það kallar á það að við byrjum fyrr að fræða ungmenni um málefni eins og samþykki, líkamlegt og andlegt ofbeldi og að þekkja rauð flögg í hegðun fólks í kring, sem og í eigin hegðun. Þetta þarf að gerast fyrr og af mun meiri krafti en hefur verið, en til dæmis er hægt ná til sem flestra í gegnum skólakerfið. Hægt væri að gera fög eins og kynjafræði að skyldufagi í menntaskólum og grunnskólum og hafa fræðslu sem hluta af íþrótta- og tómstundastarfi ungmenna. Stígamót hafa staðið fyrir frábæru margþættu átaki sem snýr að þessu, svo sem Sjúk ást og það verður að styðja við og byggja upp fleiri slík.

Hugmyndafræði ofbeldis- og nauðgunarmenningar er orðin svo gífurlega rótgróin, að við verðum að leggja aukinn kraft í að yfirgnæfa hana með fræðslu og samræðum á móti, áður en slík viðhorf ná að festa sig, ómeðvitað, í hugum ungmenna. Hér þurfa karlmenn að vera miklu meira áberandi í umræðunni en áður, taka skýra afstöðu gegn ofbeldi, sýna konum samstöðu og viðurkenna og ræða eigin forréttindastöðu. Í því felst að tala um þessi mál við karlkyns vini og fjölskyldumeðlimi og þora að stíga inn í óþægilegar aðstæður til að stoppa óviðeigandi ummæli og ofbeldishegðun gegn konum. Það er skammarlegt hve lítinn þátt karlar hafa tekið í umræðunni hingað til og leggja þarf áherslu á mikilvægi þess að karlar séu virkir bandamenn kvenna í baráttunni. Þegar kemur að kynbundnu ofbeldi er ekkert til sem heitir að taka ekki afstöðu, ef þú ert ekki skýrt á móti ofbeldinu ertu að taka afstöðu með því. Það er mikilvægt að eiga þessar samræður snemma og hvetja unglinga til ræða um eigin sambönd og samskipti og hvað sé eðlileg hegðun og hvað ekki. Að lokum þurfum við að leggja áherslu á það að konur eiga ekki, og geta ekki, barist fyrir þessu einar. Til þess að binda enda á kynbundið ofbeldi verðum við öll að vinna saman. Þetta er mál sem kemur okkur öllum við og nú þurfum við að taka höndum saman og segja: Nóg komið!!