Það er ekki úr vegi að máta þýsk stjórnmál við þau íslensku nú um stundir enda leið ekki nema dagur á milli þingkosninganna í þessum löndum í síðasta mánuði, en ólíkt Íslandi verður skipt um stjórn í Þýskalandi – og nýr kanslari jafnaðarmanna tekur við stjórnartaumunum eftir 16 ára valdatíma Angelu Merkel og kristilegra demókrata í landinu.

Tímamótin eru augljós. Einhver hógværasti maður þýskra stjórnmála, Olaf Scholz, mun leiða nýja ríkisstjórn jafnaðarmanna, græningja og frjálsra demókrata á næstu árum, en fréttaskýrendur telja að þessi lágvaxni og granni borgarstjóri frá Hamborg verði líklega stærsti og sterkasti leiðtogi Evrópu á næstu árum. Og það án alls hávaða og láta.

Auðvitað er löngu vitað að Þjóðverjar kjósa öðru fremur af skynsemi og láta upphrópanir sem vind um eyru þjóta. En kosningasigur Scholz er engu að síður merkilegur. Hófstilltur málflutningur hans í aðdraganda kosninganna féll í kramið. Hann þótti traustur og trúverðugur af því að alvaran að baki orðum hans var þrungin merkingu.

Enda fór svo að hann lyfti jafnaðarmönnum úr fimmtán prósenta fylgi í tæplega 26 prósenta stuðning landsmanna, upp fyrir gengi Kristilegra demókrata sem borið hafa höfuð og herðar yfir aðra flokka um langt árabil.

Skilaboð Scholz voru skýr, jafnt inn á við og út á við. Fyrir utan það sjálfsagða, að láta verkin tala í umhverfismálum, vildi hann auka tekjujöfnuð landsmanna til að skapa samstöðu í landinu. Fyrsta verk hans yrði að hækka lágmarkstímakaup verkafólks úr 1.400 krónum í 1.800 krónur, sem er ríflega fjórðungs hækkun.

Þá talaði hann fyrir því að sameina ólíkar fylkingar í Þýskalandi með áherslu á lýðræðislegt umburðarlyndi og víðsýni, en með því að sýna hver öðrum virðingu myndu Þjóðverjar af ólíkum uppruna sækja fram en ekki aftur.

Eins lagði hann kapp á að Þjóðverjar leiddu fjórðu iðnbyltinguna, en tæknin væri að taka fram úr manninum – og héldu landsmenn ekki vöku sinni í þeim efnum myndi hagkerfi heimamanna lamast frekar en laskast.

Loks kvaðst hann ætla að styrkja samvinnu Evrópuþjóða með því að semja við þær Austur-Evrópuþjóðir sem reka lestina í mannréttindum fremur en að skamma þær og refsa þeim.Svona talar sigurvegari. Af alvöru og ábyrgð. Hávaðalaust.