Mér líður best á þessum tíma árs, akkúrat núna.

Ég veit að há­tindi ársins er náð þar sem ég sit og skrifa þennan texta.

Sumrinu fylgir oft ó­regla og ég ræð illa við hana. Þá vaki ég oft lengi og sef lítið, þá sest sólin aldrei og ég veit ekki hverju ég á að klæðast.

Á sumrin er lítið fyrir mig að gera, ég fer út að ganga kannski, grilla fyrir vini mína eða geng eitt­hvað fjall en eftir situr orkan. Ég of­hleðst á sumrin og get ekki komið orkunni í neinn upp­byggi­legan far­veg.

Á sumrin er ég spenntur og ó­ró­legur.

Og sveittur. Ég á svo lítið af sumarfatnaði að ég er yfir­leitt sveittur á sumrin, sveittur, spenntur, þreyttur og ó­ró­legur.

Ekki gott lúkk.

Haustin eru betri. Þá fara verk­efnin að hlaðast upp aftur, það er auð­veldara að fela sig á bak við þau.

Leik­húsin opna og það er frískandi að fara út úr húsi.

Í mínum bókum jafnast ekkert á við fyrsta haust­daginn, þegar maður stígur úr úr húsi og er gjör­sam­lega lú­barinn af vindinum, þegar hann snýr mann niður, brókar og skipar manni að drulla sér aftur undir sæng.

Þann morgun finn ég alltaf líkam­lega tengingu við for­feður mína, þessa sem kusu að dvelja á­fram á Ís­landi þrátt fyrir allt, þrátt við veðrið og matinn.

Eini vandinn er hve stutt haustið er. Ég rétt blikka og veturinn er genginn í garð.

Veturinn er að sjálf­sögðu skárri en sumarið, en það jafnast ekkert á við ís­lenska haustið.