Hatursglæpir, þar sem talin hatursorðræða, hafa verið í brennidepli á hinum Norðurlöndunum undanfarin ár. Sérstakar lögregludeildir hafa verið settar á laggirnar, og fjármagn veitt í þennan málaflokk til að undirstrika mikilvægi hans. Ísland fylgdi í kjölfarið þegar dómsmálaráðuneytið gerði í lok árs 2017 samning við Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu ÖSE (ODIHR) um þjálfun lögreglumanna og saksóknara hérlendis í að rannsaka og saksækja hatursglæpi.
Lögreglumanni var falið að sinna málaflokknum hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um tíma og um 70 íslenskir lögreglumenn, víða um landið, fengu sérstaka þjálfun í að greina, rannsaka og sporna gegn hatursglæpum. Þetta hefur leitt til þess að dómar hafa fallið um hatursorðræðu hérlendis, m.a. tveir hæstaréttardómar. Það skýtur því skökku við að nú standi til að þrengja ákvæði um hatursorðræðu í almennum hegningarlögum og velta má því fyrir sér hvort það sé gert til þess að koma í veg fyrir að lögreglan sinni hatursorðræðu. Þó svo ODIHR leggi ekki eingöngu áherslu á haturstjáningu í þjálfun lögreglumanna um hatursglæpi, er ljóst að lögregla annarra Norðurlanda hefur lagt ríka áherslu á að takast á við hatursorðræðu. Til dæmis má sjá í tölfræði norsku lögreglunnar frá árinu 2017 að meirihluti þeirra hatursglæpamála sem lögreglan sinnir er hatursorðræða. Svipaðar áherslur má sjá hjá sænsku og finnsku lögreglunni.
Fyrirhugaðar lagabreytingar hér á landi, með þrengingu ákvæðis um hatursorðræðu er því stílbrot við áherslu á hinum Norðurlöndunum og þeirri vinnu sem þegar hefur unnist hérlendis. Þá er það áhugavert að þeir dómar sem nú hafa fallið í Hæstarétti yrðu í raun skilgreindir sem raus samkvæmt fyrirhuguðum breytinum, en ekki hatursorðræða gegn hinsegin fólki. Það fer því gegn skilgreiningu og upplifun þeirra sem fyrir hönd Samtakanna 78 lögðu fram kærurnar á sínum tíma og töldu tjáninguna meiðandi.
Aðrir dómar (og dómsátt) sem fallið hafa hérlendis voru vegna hatri gegn múslimum, sem þurfa að sitja undir einu alvarlegasta formi haturstjáningar sem finnst hérlendis þar sem skipulagðir hópar á netinu, á ljósvakamiðlum og í stjórnmálum, endurnýta falskar fréttir um múslima frá öðrum löndum í þeim tilgangi að útiloka múslima frá íslensku samfélagi. Til viðbótar má benda á mikla aukningu, að undanförnu, í hatursorðræðu gegn transfólki. Á undanförnum árum hafa fræðimenn einnig fjallað um hnattvæðingu haturs, þar er nefnt að uppgangur á hatri í garð ákveðinna hópa, eða séreinkenna fólks, á einum stað, hefur áhrif á haturstjáningu á öðrum stöðum. Þessu til sönnunar má sjá útbreiðslu alþjóðlegra haturshópa. Að líkindum er það svo að á meðan fyrirfinnst vaxandi hatur í garð t.d. flóttafólks, innflytjenda, múslima og transfólks annars staðar í heiminum, eins og fréttar beggja vegna Atlandshafsins bera með sér, sé full ástæða til að vera á varðbergi hérlendis þar sem áhrifa þessarar aukninga getur gætt. Hið „saklausa rant“ á netinu þarf því að setja í stærra félagslegt samhengi.
Ekki má heldur gleyma að ef hatursorðræða fær að standa óáreitt getur hún magnast, og að lokum leitt til ofbeldis. Í því tilliti er vert að skoða hvernig haturstjáningu hefur verið beitt í gegnum tíðina gegn hópum sem síðar urðu útsettir fyrir ofbeldi og jafnvel þjóðarmorðum. Með því að kalla hatursorðræðu raus er verið að gera lítið úr þeim hópum sem verða fyrir henni og afleiðingum haturs. Þá virðist vera lítill skilningur á þekktum afleiðingum hatursorðræðu en fræðimenn hafa lengi fjallað um hvernig hatursorðræða jaðarsetur, einangrar og í raun útilokar einstaklinga og hópa til samfélags- og lýðræðisþátttöku.
Það er einn af rauðu þráðunum í gegnum vinnu gegn hatursglæpum og –tjáningu að auka þekkingu fólks á því að afleiðingar hatursglæpa eru mun alvarlegri en annarra brota. Ekki síst vegna þess að ráðist er að því sem einstaklingurinn er, og fær ekki breytt, eins og litarhátt, kynvitund, þjóðernislegan uppruna o.s.frv. Þessi brot rista því dýpra en önnur, og geta haft í för með sér djúpar sálfræðilegar afleiðingar.
Þar er einnig þekkt að afleiðingar hatursbrots gegn einum aðila, t.d. vegna litarháttar, getur haft áhrif á aðra sem bera sama húðlit. Þannig geta fleiri en þeir sem verða beint fyrir hatursorðræðunni sjálfri upplifað afleiðingar brotsins og borið skaða af.
Það segir sig sjálft að fólk sem upplifir einhverskonar útskúfun úr samfélaginu, sem er ein afleiðing hatursorðræðu, er ólíklegt til að taka þátt í opinberri umræðu t.d. á netinu. Íslenska „þjóðaríþróttin“ að „fara í manninn en ekki boltann“ gerir það að verkum að margir hafa hvorki áhuga né getu til að taka þátt í slíkum umræðum, og þar með fellur hugmyndafræðin um að best sé að takast á um „vondar skoðanir“ um sjálft sig. Enda má segja að það sé fremur fólk með forréttindastöðu í samfélaginu sem er til í slíkan leik, og það eru ekki þeir sem verða fyrir barðinu á hatursorðræðu vegna uppruna, litarháttar eða kynvitundar.
Vissulega er tjáningarfrelsið hornsteinn lýðræðis, en það frelsi er ekki ótakmarkað og það felur í sér ábyrgð. Frelsi eins til að tjá sig getur aldrei verið hafið yfir rétt annars til að þurfa ekki að sitja undir hatri gegn sér, vegna óbreytanlegra þátta sjálfsmyndar viðkomandi.
Hver og einn á rétt á friðhelgi einkalífs samkvæmt lögum, sem þýðir að fólk á rétt á því að vera hinsegin, trans, innflytjandi, múslimi, með fötlun eða hvað annað sem er órjúfanlegur hluti sjálfsmynda viðkomandi án þess að þurfa sitja undir tjáningu haturs gegn því. Samkvæmt 73. gr. stjórnarskráarinnar er sérstaklega tilgreint að tjáningarfrelsinu má setja skorður og að fólk verði að bera ábyrgð á tjáningu sinni. Það er því óumdeilt að hægt sé að setja tjáningarfrelsinu skorður út frá hvoru tveggja, einstaklingshagsmunum og almannahagsmunum.
Það er auðvelt að færa rök því að ákvæði um hatursorðræðu eigi ekki að þrengja, þvert á móti, ætti að setja meiri mannskap og fjármuni í að tryggja að hér fái fólk að lifa óáreitt og þurfa ekki að líða hatur gegn þjóðernislegum uppruna, litarháttar, kynvitund, kynhneigðar, og trúarbragða. Þetta samræmis einnig tilmælum Evrópunefndar gegn kynþáttamisrétti og umburðarleysi frá 2016 um að íslensk stjórnvöld setji í almenn hegningarlög refsihækkunarheimild fyrir hatursglæpi og –tjáningu.
Rök nefndarinnar er að mikilvægt sé að sporna gegn hatursglæpum og haturstali þar sem afleiðingar þeirra geta jaðarsett fólk og hamlað þátttöku í lýðræðissamfélagi, auk þess sem horft er til almannahagsmuna vegna þess að hatursglæpir og -tal getur grafið undan samstöðu í samfélaginu og hvatt til ofbeldis gegn minnihlutahópum.