Háskóli Ísland hóf nýlega fundaröð sem ber heitið Háskólinn og heimsmarkmiðin. Eitt heimsmarkmið verður tekið fyrir á hverjum fundi þar sem framúrskarandi fræðimönnum skólans verður teflt fram til að kryfja og ræða heimsmarkmiðin frá sem flestum hliðum.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru í stuttu máli ótrúlega metnaðarfull og framsækin framkvæmdaáætlun í þágu jarðarinnar okkar og alls mannkyns. Með henni er leitast við að útrýma fátækt og stuðla að friði, frelsi og sjálfbærni.

Við höfum þegar hafið kortlagningu á rannsóknarstarfi við skólann sem tengist heimsmarkmiðunum eins og sjá má á hi.is/heimsmarkmidin, en þar verður hægt að finna efni tengt fundarröðinni á næstunni. Meðal annars yfirlit yfir rannsóknir okkar á áhrifum loftslagsbreytinga, lífríki hafsins, fjölmenningu, menntamálum, jafnrétti, heilsu, velferð, réttlæti, jöfnuði, siðfræði, sjálfbærni, nýsköpun, skipulagi innviða, neyslu, orku, næringu, atvinnulífi og hagvexti, svo fátt eitt sé talið.

Til skoðunar er einnig að Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna verði leiðarljós í næstu stefnumótun Háskóla Íslands fyrir árin 2021-2026 þannig að markmiðin og hugmyndafræði þeirra um efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbæra þróun verði viðfangsefni meginþátta í starfi háskólans.

Ástæða þess að ég tel þetta mikilvægt er sú að forsenda þess að Ísland geti lagt sitt lóð á vogarskálarnar við að ná heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun er öflug þátttaka háskólasamfélagsins. Háskóli Íslands vill að þekkingarsköpun og rannsóknir við skólann hafi víðtæk áhrif og séu nýttar til að takast á við þær flóknu áskoranir sem Ísland og heimurinn standa nú frammi fyrir.