Bráðamóttakan er sprungin og stórslys er í aðsigi. Þetta sagði Már Kristjánsson, yfirlæknir á Landspítalanum, í nýjasta tölublaði Læknablaðsins og lýsti þungum áhyggjum af stöðu mála. Hann benti á að fjöldi inniliggjandi sjúklinga hefði þrefaldast á aðeins tveimur árum og að með þessu áframhaldi muni bráðamóttakan ekki lengur geta tekið á móti öllum sem þangað leita.

Í framhaldi af greininni í Læknablaðinu birtist viðtal við konu sem missti eiginmann sinn í kjölfar ótímabærrar útskriftar af bráðamóttöku í nóvember. Álagið var of mikið til þess að hægt væri að sinna manninum og hann lést á heimili sínu, í höndum eiginkonu sinnar, skömmu síðar. Landspítalinn tilkynnti ekki um atvikið fyrr en það rataði í fjölmiðla.

Það er þyngra en tárum taki að sjá fréttir sem þessar og harmsögur úr ranni Landspítala eru því miður allt of algengar. Ítrekað er bent á brotalamir í tengslum við rekstur spítalans en þær ráðstafanir sem gripið er til virðast oft aðeins tímabundnar og fá skref stigin í átt að raunverulegum úrbótum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra lét hafa eftir sér í fjölmiðlum í vikunni að hún harmaði „það sem gerðist“ en gæti þó ekki „hagað seglum eftir fyrirsögnum fjölmiðla“. Vandi bráðamóttökunnar yrði ekki leystur á einni nóttu.

Vandinn verður vissulega ekki leystur á einni nóttu en hann er langt frá því að vera nýr af nálinni. Auk þess sem andlát er tæplegast aðeins fyrirsögn í fjölmiðlum. Til undirstrikunar á því slæma ástandi sem nú virðist ríkja lýsti formaður hjúkrunarráðs því yfir í vikunni að hvorki væru nógu mörg rúm né salerni fyrir sjúklinga á háannatímum og að dæmi væru um að fólki væru færðar erfiðar fréttir í miklum þrengslum. Slíkt ástand verður að teljast með öllu óásættanlegt. Þá er það sömuleiðis óboðlegt að fólki sé veitt meðferð í sjúkrabílum vegna plássleysis á spítalanum og síðan látið dúsa í sjúkrarúmum frammi á gangi.

Ráðuneyti Svandísar tilkynnti nýverið um aðgerðir til að draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu, meðal annars með lækkun komugjalda. Slíkar aðgerðir þjóna hins vegar litlum tilgangi ef fólki er vísað frá heilbrigðiskerfinu jafnharðan. Heildarmyndin er það sem mestu máli skiptir í þessu samhengi enda er hér um að ræða stærsta vinnustað landsins, og stað sem langflestir munu einhvern tímann á lífsleiðinni þurfa að leita til.

Ábyrgðin er mikil og ráðamenn verða að koma sér upp úr skotgröfunum og grípa til aðgerða. Áhyggjuraddirnar eru háværar og nú er kominn tími til að hlusta – og stíga skref í átt að varanlegri lausn. Ef aðrar þjóðir geta það, getum við það.