Harmakórinn óvinsæli er við æfingar þessa dagana en hann skipa peningastefnunefnd Seðlabankans, forstjórar stórfyrirtækja, fjármagnseigendur og margt þekktasta stjórnmála- og embættisfólk landsins. Kórstjórar eru fjármálaráðherra og seðlabankastjóri.

Það er átakanlegt að hlusta á harmakvein Harmakórsins þessa dagana, vitandi að þessi söngur á eftir að versna til mikilla muna eftir því sem nær dregur kjarasamningsviðræðum.

Án þess að hafa hugmynd um kröfugerðir á almennum vinnumarkaði lýsa flestir talsmenn sérhagsmuna (lesist embættismenn og ríkisstjórnin) yfir þungum áhyggjum af stöðunni og kalla eftir hófsemi og ábyrgð. Seðlabankinn keyrir upp stýrivexti til þess að sýna vígtennurnar ef almúganum skyldi detta í hug að biðja um það sama og aðrir hafa fengið. Vextir munu hækka og hækka ef þið hagið ykkur ekki vel, segir seðlabankastjóri á meðan smellur í svipunni.

En hvers vegna heyrist ekkert í kórnum þegar efsta lag samfélagsins er með græjurnar í botni? Áætlaðar arðgreiðslur á þessu ári stefna í met, eða um 200 milljarða, kaupaukakerfin og bónusarnir eru komnir aftur og forstjórarnir hafa hækkað um margföld lágmarkslaun. Stjórnmálaelítan fær sitt á vísitölufæribandi sem aldrei stoppar. Fyrirtækin skila metafkomu og bankarnir segja upp fólki og loka útibúum á meðan þeir hækka arðsemiskröfu og þjónustugjöld.

Verðbólga er í hæstu hæðum og almenni vinnumarkaðurinn á bara að sýna ábyrgð og hófsemi? Kaupmáttur launa er á hraðri niðurleið og er sótt úr öllum áttum. Verð á nauðsynjum rýkur upp og Seðlabankinn bætir gráu ofan á svart með því að keyra upp vexti sem er jafn gagnslaus aðgerð gegn utanaðkomandi verðbólgu og að hengja út þvottinn í rigningu.

Harmakórinn undirbýr stórtónleika en háannatími, eins konar jólavertíð, hans er þegar kjarasamningar á almennum vinnumarkaði eru lausir. Heyrast munu lög eins og: Græðgi ykkar er skaðleg hagkerfinu, Hófsemi og ábyrgð, Ábyrgðin er ykkar og hinir klassísku slagarar, Höfrungahlaup og Víxlverkun launa.

Fólk er ekki fífl. Spennið sætisólarnar, kæra elíta, það er mikil ókyrrð fram undan.