Vær saa god, Flatöbogen.“ Vísast hafa engin orð mælt á dönsku vakið eins mikla gleði á Íslandi og þessi kveðja að morgni 21. apríl 1971, fyrir réttri hálfri öld. Á hafnarbakkanum í Reykjavík afhenti skipstjóri varðskipsins Vædderen Flateyjarbókina og síðan Konungsbók Eddukvæða, tvær gersemar íslensks og norræns menningararfs.

Í huga margra Íslendinga lauk þá fyrst baráttu þjóðarinnar fyrir fullu sjálfstæði. Handritin komu heim, í það minnsta stór hluti þeirra. Hinar fornu skinnbækur geyma Íslendingasögur og eddukvæði, konungasögur, fornaldarsögur og riddarasögur, kveðskap og annan vitnisburð um líf, reynslu og trú á Íslandi og annars staðar í hinum norræna heimi. Íslendingar sömdu þær flestar og þær varðveittust á Íslandi kynslóð fram af kynslóð. Þessar bókmenntir kallast á við evrópskar bókmenntir síns tíma, en eiga um leið rætur í rammíslenskum jarðvegi.

Við þurfum ekki að harma að handritin hurfu úr landi á sínum tíma. Hefði engu verið safnað og ekkert verið flutt suður á bóg hefði margt bókfellið glatast að eilífu á Íslandi. Landið var fátækt, án kastala og borga, án vísra geymslustaða.

En tímarnir breytast. Lengi vel þótti valdhöfum í Danmörku ekki koma til álita að flytja hinar fornu bækur aftur norður í höf. Síðar urðu réttlæti og sanngirni ofan á. Þröngsýni, lagaklækir og frekja fengu að víkja. Gengið var frá einstökum samningi um skil á íslenskum handritum. Þann stórhug Dana má meta og virða.

Þessa sögu má gjarnan segja um okkar daga þegar enn er deilt um sambærileg verðmæti víða um heim. Tekist er á um þjóðargersemar sem fulltrúar nýlenduvelda tóku ófrjálsri hendi eða fengu með vafasömum samningum. Því miður eigum við ekki næg dæmi um það að fulltrúar erlendra ríkja komi færandi hendi eins og skipstjórinn á Vædderen til Íslands fyrir hálfri öld og segi í svipuðum anda: „Gerið svo vel, hér eru stytturnar sem teknar voru frá ykkur, hér eru guðalíkneskin, hér eru ykkar einstæðu fornminjar.“

Með þessu er ekki þar með sagt að allt sé skýrt um sanngjarnt eignarhald og uppruna og öllum munum eigi skilyrðislaust að skila. Veröldin er flóknari en svo. En meginreglan á að vera sú að óskir í upprunalandi skáki hagsmunum hinna sem vilja enn njóta ólöglegra, ósanngjarnra eða úreltra gjörninga fyrri tíma.

Sagan af skilum íslensku handritanna er gott dæmi um sátt sem una má við. Enn er fjöldi íslenskra handrita í Danmörku og víðar erlendis. Áfram má ræða hvort sum þeirra eigi frekar heima á Íslandi. Mikilvægast er þó að þau, sem hafa þessar einstæðu heimildir undir höndum, gæti þeirra vel, rannsaki textana og miðli þeim til fræðasamfélags og almennings.

Við Íslendingar njótum þess að úti í heimi vill fólk sökkva sér ofan í þann heim sem sagt er frá í hinum fornu handritum okkar. Við ættum alls ekki að stuðla að því að þau lokist af hér á Íslandi. Við þurfum að sjálfsögðu að verja þau fyrir skemmdarmætti tímans, en við þurfum líka að verja þau fyrir öfgum og ofsa. Við þurfum með öðrum orðum að verja Ásgarð, heimkynni goðanna, fyrir þeim sem reyna að misnota norrænan sagnaarf til að ala á fordómum, illsku og ótta. Vissulega er mikið um ofbeldi og aðdáun á afli hins sterka í okkar fornu sögum. „Bændur flugust á“; þannig hefur þeim verið lýst í hnotskurn en auðvitað líka í hálfkæringi. Og gleymum því ekki að sögurnar geyma mun frekar vísdóm um mikilvægi sæmdar og sanngirni, hugrekkis og þrautseigju.

Loks skulum við horfa björtum augum fram á veg. Í aldanna rás hafa handritin veitt fólki ánægju og innblástur, framlag forfeðra okkar og -mæðra til heimsmenningarinnar. Öll, sem hlusta á tónlist Wagners, mega vita að hann sótti í smiðju Snorra Sturlusonar og annarra sagnaritara. Sama gerðu Tolk­ien og svo margir fleiri höfundar í heimi bókmenntanna, um það vitna til dæmis dvergurinn Gimli í Hringadróttinssögu og drekinn Smaug í Hobbitanum, augljós eftirmynd Fáfnis sem greint er frá í Konungsbók Eddukvæða. Og nú síðast sjáum við grilla í Óðin, Frigg og fleiri æsi og ásynjur í ofurhetjumyndum Marvels.

Höldum því áfram að móta okkar merka menningararf, með öllum sem hans vilja njóta nær og fjær. Í dag er lagður hornsteinn að nýju fræðasetri í Reykjavík þar sem hægt verður að geyma og sýna handritin enn betur en áður. „Við höfum beðið lengi eftir þessari byggingu,“ sagði Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi, fyrir skemmstu. Á þennan hátt er 21. apríl 2021 einnig gleðistund í sögu okkar Íslendinga. Hjartanlega til hamingju með daginn, kæru landar!