Í dag fögnum við því að fimmtíu ár eru liðin frá því að fyrstu tvö handritin, Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók, komu heim til Íslands frá Danmörku með herskipinu Vædderen. Mannfjöldi safnaðist saman í miðbæ Reykjavíkur og frí var gefið í skólum landsins. Þann dag var ég á ellefta ári og hélt eins og aðrir skólakrakkar niður í bæ til að fylgjast með komu herskipsins og hreifst af þeirri spennu sem lá í loftinu. Mörgum fannst sem lokaskrefið í sjálfstæðisbaráttunni hefði þarna verið stigið.

Lausn handritamálsins var stórmerkileg í alþjóðlegu samhengi og augljóst að Danir sýndu Íslendingum mikið vinarbragð. Í tilefni af þessum tímamótum verður lagður hornsteinn að Húsi íslenskunnar sem rís nú á gamla Melavellinum. Þar mun Árnastofnun verða undir sama þaki og námsgreinar í íslensku og íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Á þeim stað verður þannig sjálfkrafa miðjan í rannsóknum á íslenskri tungu, menningu og bókmenntum í heiminum, rannsóknar- og sýningaraðstaða eins og best verður á kosið og gott aðgengi að handritum og öðrum gögnum stofnunarinnar fyrir almenning, ekki síst fyrir nýja kynslóð og liðsmenn íslenskunnar.

Á tímamótum skiptir máli að huga að framtíðinni og hvaða skref við getum nú tekið til að miðla handritaarfinum sem best til allra sem hafa áhuga á þeim fjölbreyttu textum, myndum og jafnvel tónlist sem handritin geyma. Íslensk handrit eru ekki aðeins varðveitt á Íslandi eða í Danmörku, heldur er töluverður fjöldi íslenskra handrita varðveittur á söfnum í öðrum löndum, eins og í Svíþjóð og Bretlandseyjum. Áætlað er að um 4.000 íslensk handrit séu varðveitt í söfnum erlendis og eru þá ekki talin með handrit í einkaeigu afkomenda vesturfaranna í Kanada og Bandaríkjunum þar sem skrár yfir þau handrit eru ekki frágengnar.

Á hálfrar aldar afmæli heimkomu fyrstu handritanna væri skemmtilegt og við hæfi ef við strengdum þess heit að skrá íslensk handrit um allan heim í einn gagnagrunn, eins og handrit.is þar sem nú eru settar inn myndir af handritum úr safni Árna í Reykjavík og Kaupmannahöfn og handrit í Landsbókasafni, í góðu samstarfi við söfn í ólíkum löndum, mynda þau og skrá eins nákvæmlega og kostur er. Slíkt verkefni er vitaskuld kostnaðarsamt og tímafrekt, en myndi gerbreyta aðgengi almennings, fræðimanna, listamanna, þýðenda og rithöfunda um allan heim að þessum einstöku heimildum sem spanna meira en 800 ár og vera vinarbragð okkar við alla sem unna íslenskum bókmenntum, sögu og menningu.