Í tilefni af því að hálf öld var liðin frá því að Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða voru afhentar Íslendingum til varðveislu skipaði Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra þrjá fulltrúa í starfshóp sem ætlað er að ræða menningarleg samskipti Íslands og Danmerkur. Meðal atriða sem verða tekin fyrir er „fyrirkomulag lána á handritum til Íslands“. Ekki hefur verið mikið um það á síðustu árum að handrit væru fengin að láni úr dönskum söfnum en þó gerðist það vegna fullveldissýningar í Listasafni Íslands fyrir þremur árum. Þá komu Reykjabók Njálu (AM 368 4to) og Ormsbók Snorra-Eddu og málfræðiritgerða (AM 242 fol.) í stutta heimsókn. Ekki held ég að það hafi verið torsótt og því hljóta orðin „fyrirkomulag lána“ að merkja eitthvað annað. Sennilega er vísað til þess að í raun munu handritin sem voru flutt til landsins úr Árnasafni á árunum 1971–1997 vera eign háskólans í Kaupmannahöfn samkvæmt erfðaskrá Árna Magnússonar sem lést 7. janúar 1730. Ef til vill eru þau í lagalegum skilningi að láni. Handritin úr Konunglegu bókhlöðunni kunna aftur á móti að hafa verið gjöf frá danska ríkinu.

Hvað stendur til? Menntamálaráðherra hefur í viðtölum viðrað þá hugmynd að íslensku handritin í Kaupmannahöfn eigi að koma aftur til Íslands – stundum öll, stundum fleiri, stundum bara einhver þeirra. Í september í fyrra skilaði starfshópur greinargerð sem er haldið leyndri og í opinberum málflutningi undanfarna daga hefur áherslan verið á dýrgripi og gersemar sem eigi að vera í Reykjavík en ekki í Kaupmannahöfn. Engin nöfn eru nefnd eða ritsmíðar. Fjölmiðlar hafa einskis spurt eða ekki fengið svör og nú er komin nefnd sem á að skila áliti fyrir áramót. Á meðan beðið er langar mig að útfæra þrjár mögulegar sviðsmyndir sem vonandi setja málið í nokkurt samhengi:

1) Krafist verður sérlega mikilvægra handrita. Tvö slík hef ég þegar nefnt og fleiri skinnbækur koma sterklega til greina, ekki síst handrit Noregskonungasagna á borð við Morkinskinnu (GKS 1009 fol.) og Huldu (AM 66 fol.) eða stórglæsileg eintök biblíuþýðinga og heilagramannasagna sem myndu sóma sér vel á nýrri sýningu (AM 226 fol., AM 234 fol. og fleiri).

2) Krafist verður tiltekinna hópa eða tegunda. Handritum Árna Magnússonar var skipt í tvennt eftir því hvert viðfangsefnið var, þannig að væri textinn um Ísland yfirgaf handritið Höfn. Upphafleg krafa íslenskra stjórnvalda var að afhent yrðu öll handrit á íslensku eða þá að miðað yrði við þjóðerni skrifara. Þessa þræði mætti taka upp að nýju í mildari útgáfu og til dæmis óska eftir öllum Eddukvæðum, Snorra-Eddum eða fornaldarsögum. Þá myndu yngri handrit þeirra texta fá að fljóta með enda eru varla 400 hundruð skinnbækur og skinnbrot í Kaupmannahöfn en vel á annað eða þriðja þúsund pappírshandrit.

3) Krafist verður allra íslenskra handrita í Árnasafni í Kaupmannahöfn eða jafnvel allra sem eru í Danmörku. Reyndar þykir mér óhugsandi að nokkrum detti þetta í hug í alvöru og fullyrðingar sem hafa heyrst slíkri hugdettu til stuðnings á þá leið að Danir hafi ekki staðið sig í handritarannsóknum standast ekki. Tímaritið Opuscula kemur út í Kaupmannahöfn annað hvert ár barmafullt af sprenglærðum greinum. Alþjóðlegar ráðstefnur eru haldnar reglulega um forvörslu og sumarskóli í handritafræðum. Ljósmyndir handrita sem Árnasafn hefur látið taka eru aðgengilegar á veraldarvef. Vinnuaðstaða þar fyrir aðvífandi fræðimenn er betri en aðstaðan við Árnastofnun í Reykjavík.

Hugsast getur að fleiri leiðir við kröfugerð komi til greina eða millivegir. Sú leið væri samt best að láta handritaskiptasamninginn óáreittan og efna heldur til markvissrar uppbyggingar á innviðum til rannsókna á íslenskum handritum hvar sem þau kunna að vera stödd, ekki bara í Kaupmannahöfn og Reykjavík heldur líka í Stokkhólmi, Uppsölum, Osló, Þrándheimi, Berlín, Wolfenbüttel, París, Cambridge, Oxford, London, Dublin og víðar. Sú vegferð er hafin með stafrænni skráningu og birtingu mynda á vefslóðinni handrit.is en betur má ef duga skal og líklega vantar bara herslumun til að ljúka verkefninu almennilega.