Hvað er sál? Lesendur sem opnuðu Fréttablaðið áður en þeir komust til meðvitundar við fyrsta kaffibolla dagsins kunna að telja sig gangandi sönnun á tvíhyggju Descartes um aðskilnað anda og efnis; líkaminn er kominn á stjá á meðan sálin hrýtur. Eftirfarandi fullyrðingu ætti hins vegar enginn að lesa fyrr en eftir fyrsta kaffibolla: Hvað ef sál þín er aðeins sjónhverfing?

Bandaríski vísindaheimspekingurinn Daniel Dennett hafnar aðskilnaði líkama og sálar og líkir heilanum við tölvu. Hann segir mannshugann vél, sem búin sé til úr milljörðum agnarsmárra vélmenna eða taugafruma. Inni í tölvum, rétt eins og inni í höfðinu á okkur, er flókinn vélbúnaðar sem fáir skilja.

Til þess að við megum færa okkur vélina í nyt þurfum við notendaviðmót – takka, flipa og möppur – eða það sem forritarar kalla „notenda-sjónhverfingu“.

Sálin er sambærileg sjónhverfing, að sögn Dennett. Vitund okkar er ekki annað en notendaviðmót heilans. Gagnvart okkur er veröldin full af fólki, dýrum, húsgögnum, bílum, krísum, kæti, tækifærum og mistökum; hún er full af fyrirbrigðum sem við getum bent á, hagrætt, stjórnað, elskað og hatað.

Allt er þetta þó aðeins hluti af sjónhverfingunni sem er notendaviðmótið. Hin eiginlega veröld er full af sameindum, frumeindum, rafeindum, þyngdarafli, öreindum.

Á mánudag opnuðu Bandaríkin landamæri sín fyrir bólusettum ferðamönnum frá Evrópu eftir tuttugu mánaða lokun vegna Covid-faraldursins. Fagnaðarlæti ómuðu á JFK-flugvellinum í New York.

Gleðin ríkti víðar. Samtök smávöruverslana í Bretlandi réðu sér ekki fyrir kæti þegar í ljós kom að verslun hefði aukist um 6,3 prósent borið saman við sama tíma árið 2019, fyrir Covid-faraldurinn. „Hlutirnir eru að komast í fyrra horf,“ sagði framkvæmdastjóri samtakanna.

Og fleiri fréttir af velgengni: Hagkerfi Frakklands hefur náð fyrri stærð eftir að hafa skroppið saman í Covid. Í Kína var vöruskiptajöfnuður í október hagstæðari en nokkru sinni fyrr, og það þrátt fyrir vandamál í aðfangakeðjum í kjölfar Covid.

Fyrri hæðum var náð á enn öðru sviði: Samkvæmt nýrri rannsókn Háskóla East Anglia mun magn kolefnisútblásturs í heiminum senn vera orðið það sama og það var fyrir Covid-faraldurinn.

Meiri ógn en Covid

Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna er að ljúka. „Við erum ekki á áætlun,“ var viðvörun loftslagsvísindamanna til stjórnvalda hinna fjölmörgu landa sem sóttu samkomuna. Vísindaráðgjafi Bretlands sagði loftslagsbreytingar „meiri ógn en Covid“.

Brýn hætta steðjar að okkur öllum. Þrátt fyrir það veigra ráðamenn sér við því að grípa til aðgerða sem haldið geta hækkun á meðalhita jarðar undir 1,5 gráðum.

Þegar Covid-19 faraldurinn skall á lagðist millilandaflug af, það dró úr bílaumferð, neysla snarminnkaði og hagkerfi skruppu saman. Allt þóttu þetta vísbendingar um veröld á vonarvöl. Sú sýn var hins vegar sjónhverfing.

Við teljum veröldina vera eins og við sjáum hana. Gagnvart áhrifafólki á COP26 er veröldin verg landsframleiðsla, flutningsleiðir, viðskiptahalli, lánalínur, kauphallir og fjárhagsáætlanir. Gagnvart okkur er veröldin umferðarteppan á Miklubraut, tvennutilboð Dominos, „singles day“, helgarferð til Köben.

Allt er þetta þó aðeins notendaviðmótið. Hin eiginlega veröld er ekki Amazon.com heldur Amazon-regnskógurinn. Hin eiginlega veröld er O2, H2O, lofthjúpurinn, Grænlandsjökull, Golfstraumurinn.

Mannshugurinn. Tölvan okkar. Veröldin. Notendaviðmótið er það sem blasir við. Sálarheill öðlumst við þó aðeins ef við hlúum að því sem er handan sjónhverfingarinnar. Ef við hugum ekki að vélbúnaðinum deyjum við.