Verð á rafmagni er orðið svo hátt í Bretlandi að fjöldi fólks hefur ekki lengur efni á að kynda heimili sín. Hneykslun vakti nýverið þegar breska orkufyrirtækið Ovo ráðlagði viðskiptavinum sínum að sækja sér hita með því að faðma gæludýrin sín, hefði það ekki efni á að kveikja á ofnunum. Annað orkufyrirtæki, E.ON, sendi viðskiptavinum sínum sokka í pósti.

Margir ylja sér nú við tilhugsunina um tilveruna eftir Covid, en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin spáir lokum heimsfaraldursins á árinu. Í gráma janúarmánaðar snúast áætlanir um hinn nýja veruleika gjarnan um ferðalög til heitra landa og gleðskap. Svo kann þó að vera að handan hornsins bíði annað en sú veröld vellystinga sem okkur dreymir um.

Frábær faraldur

Í kórónaveirufaraldrinum urðu hinir ríku ríkari og þeir fátæku fátækari. Samkvæmt skýrslu hjálparsamtakanna Oxfam sem birt var í vikunni, tvöfaldaðist samanlagður auður tíu ríkustu manna veraldar á tímum heimsfaraldursins. „Milljarðamæringar áttu frábæran faraldur,“ sagði Gabriela Bucher, framkvæmdastjóri Oxfam. „Seðlabankar dældu fjármunum inn á fjármálamarkaði til að bjarga hagkerfum, en mikið af verðmætunum endaði í vösum milljarðamæringa sem stórgræddu á bólum á hlutabréfamörkuðum.“

Á sama tíma og eignir manna á borð við Elon Musk og Jeff Bezos blésu út, drógust tekjur 99 prósenta mannkyns hins vegar saman, samkvæmt skýrslunni. Vegna sóttvarnaaðgerða, samdráttar í alþjóðaviðskiptum og túrisma, fjölgaði fólki sem lifir í fátækt um 160 milljónir.

Bretland gæti orðið fyrst landa til að lýsa kórónavírusfaraldrinum lokið, en mjög hefur hægt á smitum og spítalainnlögnum þar nýverið. Sú heimsmynd sem blasir við handan hamfaranna er þó ekki glaumur og gleði. Launaójöfnuður hefur aukist í fyrsta sinn í tíu ár, verðbólga hefur ekki verið jafnhá í þrjátíu ár, skattbyrði hins almenna launþega þyngist og fjölskyldur þurfa að velja milli þess að kynda eða kaupa mat.

Veröldin eftir kóvid var á dagskrá ársfundar Alþjóðaefnahagsráðsins, sem venjulega er haldinn í Davos, en fór fram í vikunni rafrænt vegna heimsfaraldursins. Fundinum barst opið bréf af óvenjulegum toga. „Við getum ekki annað en viðurkennt að í þau tvö ár sem veröldin hefur gengið í gegnum ólýsanlegar þjáningar vegna heimsfaraldurs hefur auður okkar snaraukist,“ sagði í bréfinu sem var undirritað af hundrað milljarðamæringum víða að úr heiminum. „Fæst okkar, ef nokkurt, geta þó í einlægni sagst hafa borgað sanngjarna skatta.“

Í bréfi til efnahagsráðsins krefst ríkasta fólk veraldar þess að það sé tafarlaust krafið um hærri skatta, svo að byggja megi upp sanngjarna veröld úr sviðinni jörð heimsfaraldursins: „Skattleggið þau ríku, skattleggið okkur strax.“ Á listanum má finna Dani, Norðmenn, Bandaríkjamenn, Breta og Þjóðverja. Þar var þó ekki að finna neinn auðjöfur frá einu ríkasta landi heims, Íslandi.

Teikn eru á lofti um að veruleikinn eftir Covid verði tvískiptur. Annars vegar blasir við draumkennd veröld hinna fáu sem knýja áfram eftirspurn eftir Range Rover jeppum og skíðaferðum til Ischgl, hins vegar óttablandin grámóska hinna fjölmörgu sem þurfa að gera sér að góðu að faðma gæludýrin sín til að halda á sér hita.

Á Íslandi kann að virðast langt í endalok faraldursins. Freistandi er því að „dvelja í möguleikanum“ eins og ljóðskáldið Emily Dickinson komst að orði – ylja sér við óra. En hinn nýi veruleiki er handan hornsins. Hver hann verður er undir okkur komið.

Hér á landi eins og annars staðar hafa fjölmargir hagnast gífurlega í heimsfaraldrinum. Er ekki tímabært að spyrja hver sé eðlilegur hlutur þeirra í komandi uppbyggingarstarfi?