Þegar Bandaríkjamenn eru spurðir hvort þeir telji réttlætanlegt að grípa til ofbeldis til að framfylgja pólitískum stefnumálum sínum segja um fimm prósent að það geti komið til greina. Þetta hlutfall ku vera mjög áþekkt hjá Repúblikönum og Demókrötum.

Þannig að ef fjörutíu nemendur væru í einum árgangi í skóla og skipt í tvo bekki, R og D—þar sem 20 Demókratar væru í öðrum bekknum og 20 Repúblikanar væru í hinum bekknum—væri sennilegt að í hvorum bekknum væri einn þeirrar skoðunar að ofbeldi gegn hinum bekknum kæmi til greina.

Ættbálkastemmning

Þegar svarendur í könnuninni bandarísku eru beðnir um að giska á það hversu hátt hlutfall stuðningsfólks hins flokksins væri tilbúið að beita ofbeldi í pólitískum tilgangi kemur hins vegar í ljós að báðir hóparnir halda að um helmingur andstæðinganna sé í valdbeitingarhugleiðingum. Í skólanum okkar væri staðan því þannig að í R-bekknum væri einn nemandi tilbúinn að beita ofbeldi, en sú skoðun væri ríkjandi að í D-bekknum væru tíu af tuttugu nemendum í ofbeldisham.

Þetta þarf kannski ekki að koma á óvart. Í ímyndaða skólanum okkar væru það örugglega hávaðaseggirnir í sitthvorum bekknum sem hefðu sig hvað mest í frammi í öllum frímínútum og hefðu uppi ógnandi tilburði. Fyrir vikið virðist sú ályktun sennileg í huga R-bekkjarins að þeir ofstopafyllstu í D-bekknum séu einmitt dæmigerðir fyrir alla þá lúsablesa Á endanum er hætt við að flestum líði best með að gefa sig fullkomlega á vald frumstæðustu ættbálkahugsun.

Illdeilur sem viðskiptamódel

Þegar fylgst er með fréttum í Bandaríkjunum er maður ekki lengi að átta sig á því hvernig svona ranghugmyndir um innræti og fyrirætlanir andstæðinganna grafa um sig. Fréttamiðlarnir eru nánast allir sniðnir til þess að höfða til fólks með tilteknar skoðanir. Á miðlum eins og Fox News er algengt að áhersla sé lögð á að upplýsa áhorfendur um afleiðingar uppþota og óeirða þar sem vinstrisinnaðir (eða róttækir) hópar mótmæla til dæmis lögregluofbeldi. Á öðrum miðlum, eins og CNN og MSNBC, er mun meiri áhersla lögð á lögregluofbeldið og fremur lítið gert úr neikvæðum hliðum langvarandi mótmæla.

Allir fréttamiðlarnir eiga reyndar ekki bara sameiginlegt að birta látlaust ískyggilegar fréttamyndir af grunsamlegum hópum að fremja margvíslegt misyndi. Á báðum hópum dynja líka linnulausar auglýsingar um margvíslega lífs-elexíra í lyfjaglösum, sem ásamt áhættu á margvíslegum aukaverkunum bjóða upp á hugsanlegan stundarfrið frá áunnum lífsstílssjúkdómum.

Þannig er þetta í umræðunni í Bandaríkjunum. R- og D-bekkirnir sitja hvor í sínu fjarnámi fyrir framan sjónvarpið og fylgjast með viðstöðulausum fréttaflutningi um hversu óskaplega hættulegt fólkið er sem tilheyrir hinum hópnum. Einangrunin gagnvart yfirvegaðri umræðu er orðin að viðskiptamódeli flestra fjölmiðla, sem matreiða ofan í söfnuðinn sífelldar staðfestingar á fyrirframgefnum hugmyndum eða ranghugmyndum.

Skotgrafningur

Öll umræða getur haft tilhneigingu til þess að fara í sambærilegar skotgrafir. Fólk sem annars hefur engan áhuga á skipulagsmálum nær að sprengja blóðþrýstingsmæla þegar talið berst að borgarlínu og flugvellinum. Pólitískir andstæðingar fara smám saman að trúa því að fólkið „hinum megin“ sé ekki bara á annarri skoðun, heldur jafnvel heimskt og illa innrætt.

Í umræðum um helstu málefni samtímans, faraldurinn og hvernig samfélögin geta komist út úr heljargreipum hans, er líka mikilvægt að minna sig öðru hverju á að mjög ólíklegt er að þeir sem eru á öndverðum meiði séu heimskir eða illa innrættir. Vitaskuld flækjast alls konar tilfinningar inn í umræðuna líka og rétt eins og í R- og D-bekkjunum í ímyndaða skólanum okkar þá er líklegt að þeir hafi allra hæst sem hafa öfgafyllstu skoðanirnar. Það hlýtur til dæmis að geta farið saman að vera umhugað um að vel gangi að hemja útbreiðslu faraldursins, en vera jafnframt hugleikið mikilvægi þess að gæta að ýmsum grundvallarþáttum í sjálfráðarétti einstaklinganna og borgaralegum mannréttindum.

Eflaust kemur það bæði Repúblikönum og Demókrötum á óvart að það séu ekki 50% heldur 5% í liði andstæðinganna sem telji forsvaranlegt að beita ofbeldi í þágu síns pólitíska málstaðar. En þannig er það nú samt. Til dæmis er enginn vafi að mannréttindi á borð við tjáningarfrelsi eru Kára Stefánssyni ákaflega kær og það er öruggt að Sigríði Andersen er umhugað um öryggi fólks og heilbrigði. Fólk raðar sér vitaskuld í sitthvorn bekkinn í málum, smáum og stórum—en oftast kæmi á óvart hversu mörg okkar eru sammála um að reyna að halda friðinn þrátt fyrir ólíkar skoðanir og eldheitar ástríður.