Þingkosningar verða haldnar í Bretlandi í næstu viku. Nýverið stóð sjónvarpsstöðin Channel 4 fyrir kappræðum milli formanna stjórnmálaflokkanna um loftslagsbreytingar. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og formaður Íhaldsflokksins, neitaði að mæta. Þáttarstjórnendur komu fyrir á sviðinu bráðnandi ísskúlptúr þar sem Boris átti að standa. Boris varð brjálaður. Úr herbúðum hans bárust þau skilaboð að ef flokkur hans hlyti sigur í kosningunum yrði útsendingarleyfi stöðvarinnar endurskoðað.

Næsta dag kom náttúrufræðingurinn David Attenborough sjónvarpsstöðinni til varnar. Attenborough sem orðinn er 93 ára mætti í heljarlangt einkaviðtal hjá sjónvarpsstöðinni þar sem hann sagði fjarveru Borisar „skammarlega“. „Ég veit svo sem ekki hvað hann hafði annað að gera, en það þarf að hafa verið eitthvað mjög mikilvægt til að réttlæta skróp.“ Að sögn Stanleys Johnson, föður Borisar, var sonur hans heima að steikja sér ommilettu meðan á rökræðunum stóð.

„Öðruvísi framtíð“

Í vikunni fékk eiginmaður minn tölvupóst frá vini á Nýja-Sjálandi. Lýsti vinurinn hrifningu sinni á framsæknum stjórnarháttum á Íslandi. Sagðist hann óska þess að stjórnvöld fleiri ríkja en Íslands settu velferð íbúanna í forgang og hefðu umhverfismál og hamingju að leiðarljósi við ákvarðanatökur frekar en verga þjóðarframleiðslu.

Eiginmaðurinn las upp fyrir mig póstinn og við klóruðum okkur í höfðinu. Hvorugt okkar kannaðist við þessa lýsingu á íslensku stjórnarfari. Við eftirgrennslan kom í ljós að Nýsjálendingurinn hafði lesið frétt á BBC um fyrirlestur sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í Chatham House í London um „velsældarhagkerfið“ þar sem Katrín sagði ríkisstjórn sína stefna á „öðruvísi framtíð“ þar sem markmiðið væri velferð og vellíðan „núverandi og komandi kynslóða“.

Í fyrrnefndu viðtali um loftslagsvána vandaði David Attenborough stjórnmálafólki ekki kveðjurnar. „Það er erfitt að sjá að stjórnmálamenn séu að bregðast við með nokkrum hætti.“ Hann sagði að við yrðum að leita annað í von um skjót viðbrögð og kvaðst binda vonir við kapítalismann og að fyrirtæki sæju ástæðu til að grípa í taumana – hvort sem hvatinn væri „að þau vildu vel“, „ímyndarsköpun“ eða „viðskiptatækifæri“.

Grænt lógó

Árið 2014 skók hneyksli bresku biskupakirkjuna. Í ljós kom að kirkjan var fjárfestir í okurlánafyrirtækinu Wonga, fyrirtæki sem erkibiskupinn af Kantaraborg hafði skorið upp herör gegn nokkrum mánuðum fyrr.

Um svipað leyti samþykkti Alþingi frumvörp um kísilver á Bakka. Málið, sem kostaði ríkissjóð milljarða á formi styrkja, framkvæmda og skattaívilnana, leiddi þáverandi formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon. Katrín Jakobsdóttir, núverandi formaður, studdi frumvörpin.

Það er ekki nóg að vera með grænt lógó til að teljast græningjaflokkur. Svo virðist sem Attenborough hafi á réttu að standa. Ef ekki er hægt að treysta umhverfisflokki í ríkisstjórn til að gæta umhverfisins þurfum við að leita út fyrir veröld stjórnmálanna að lausnum.

Rekstur kísilversins á Bakka hefur ekki gengið sem skyldi. Nýverið bárust fréttir af því að fyrirtækið leitaði að auknu fjármagni, meðal annars hjá íslenskum lífeyrissjóðum sem nú þegar eru hluthafar.

Breska biskupakirkjan endurskoðaði fjárfestingastefnu sína eftir Wonga hneykslið. Hvernig stendur á því að lífeyrissjóðir í eigu landsmanna fjárfesti í kísilveri sem spáð er að losi 7,6 prósent allra gróðurhúsalofttegunda á Íslandi þegar það nær fullri framleiðslu – mengun sem eigendur fjárins, landsmenn, fá svo að anda að sér? Það er löngu tímabært að lífeyrissjóðirnir og aðrir fjárfestar marki sér siðferðilega og samfélagslega ábyrga fjárfestingastefnu. Því tæpast getum við treyst stjórnmálafólki fyrir „velferð og vellíðan núverandi og komandi kynslóða“ sama hvað það segir í hátíðarræðum.