Mannkynið hefur um aldir búið sig undir eigin endalok. Gamla testamentið segir fyrir um Nóaflóðið. Norrænir menn bjuggust við ragnarökum. Þekktasti spákarl Íslendinga, Jón Krukkur, spáði fyrir ótrúlegum hörmungum í Krukksspá sinni endur fyrir löngu.

Heimsendaspámenn hafa þó aldrei verið fyrirferðarmeiri en nú. Þeir hafa lagt undir sig alla fjöl- og netmiðla og endurtaka í sífellu að heimur sé á helvegi. Ógnir mannkyns hafa aldrei verið fleiri, nýr inflúensufaraldur, hamfarahlýnun og bráðnun jökla, væntanlegt eldgos við Grindavík og endurtekin mannskaðaveður á þorra.

Framtíðarmynd komandi kynslóða er næsta dapurleg. Landlægur inflúensufaraldur veldur því að annar hver maður er hóstandi og hinn í öndunarvél. Landið sekkur í sæ vegna hlýnunar jarðar. Viðvarandi jarðeldar og/eða óveður ríkja á Reykjanesskaga. Möguleikarnir eru endalausir og fréttaflutningur er eins og framtíðarskáldsaga. Brottflutningur íbúa Grindavíkur er skipulagður með tilheyrandi viðtölum við alvöruþrungna embættismenn. Nýju flensunni er lýst eins og íþróttakappleik þar sem fjöldi sýktra og dáinna er tíundaður daglega eins og hálfleikstölur í fótbolta.

Þetta hamfarablæti er orðið þreytandi. Menn sjá dauða og djöful í öllum hornum. Neikvæðnin er orðin að trúarbrögðum. Þeir sem ekki vilja taka þátt í þessu svartagallsrausi eru úthrópaðir sem afneitunarsinnar. Þótt 100 þúsund manns hafi sýkst af nýju flensunni þýðir það að tæplega átta milljarðar jarðarbúa eru ósýktir.

Er ekki mál að linni og menn hætti að láta ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur? Krukkur spáði því að Dómkirkjan mundi sökkva ef ákveðinn fjöldi presta stæði skrýddur fyrir altari ásamt biskup. Það gerðist ekki mörgum til undrunar. Heimurinn stendur enn þótt Jón Krukkur og sálufélagar hans hafi fyrir löngu afskrifað hann.