Fjölmiðlar eru ekki merkilegri en hvert annað fyrirtæki sem þarf að glíma við þær áskoranir sem tækniframfarir hafa haft í för með sér. Annað má lesa úr fjölmiðlafrumvarpinu sem sett hefur verið á dagskrá.

Í grunninn snýst frumvarpið um að fjölmiðlar landsins verði bótaþegar með því að fá 25 prósent af launakostnaði við rekstur ritstjórnar endurgreiddan úr ríkissjóði. Eins og við mátti búast var tillögunum illa tekið af Sjálfstæðismönnum til að byrja með og því hefur menntamálaráðherra stefnt að því að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði.

Útlit er fyrir að stofnuninni verði að mestu bætt tapið en samkvæmt nýjum fjárlögum hækka framlög til RÚV um 190 milljónir og útvarpsgjaldið hækkar um 2,5 prósent. Þannig er sótt að skattgreiðendum úr tveimur áttum. Annars vegar með því að niðurgreiða einkarekna fjölmiðla, og hins vegar með því að bæta Ríkisútvarpinu tekjutapið.

Kjarninn er sá miðill sem virðist hafa haft hvað mestan áhuga á frumvarpinu. Í leiðurum sínum hefur ritstjórinn málað dökka mynd af rekstrarumhverfi fjölmiðla og stillt málinu þannig upp að framtíð íslenskrar fjölmiðlunar sé undir. Þess má geta að Kjarninn og aðrir miðlar af sömu stærð njóta hlutfallslega meiri ávinnings af frumvarpinu enda er sett hámark á niðurgreiðslurnar. En er rekstrarumhverfið jafn slæmt og ritstjórinn lýsir?

Myllusetur, útgáfufélag Viðskiptablaðsins, skilaði hagnaði samfellt á árunum 2010 til 2017. Stundin hagnaðist um 10 milljónir króna á síðasta ári og jókst hagnaðurinn um 4 milljónir á milli ára. Bæði Stundin og Viðskiptablaðið byggja rekstur sinn á áskriftalíkani og hafa gert það með farsælum hætti. Báðir miðlarnir eru dæmi um að hægt sé að reka metnaðarfullan fjölmiðil á Íslandi.

Það er ekki og á ekki að vera sjálfsagður réttur að halda fyrirtæki sínu í rekstri. Ávinningurinn af frjálsri samkeppni felst einmitt í því að góðar viðskiptahugmyndir skila hagnaði og slæmar skila tapi. Þetta er ein af undirstöðum efnahagslegra framfara.

En sumir una ekki niðurstöðu markaðslögmálanna. Þegar þeir bregða sér í hlutverk dómsdagsspámanna í því skyni að fá niðurgreiðslur frá hinu opinbera þá skaltu halda fast í veskið.