Ég hef alla tíð verði mikill Eurovisiongaur, horfi á allar keppnir og man meira eftir gömlum slögurum en eðlilegt þykir. Gente di mare er án nokkurs vafa besta Eurovisionlag allra tíma.

Eins og öll þjóðin, þá fylgdist ég með Daða og Gagnamagninu um síðustu helgi. Þau voru frábær og miðað við höfðatölu þá gjörsigruðum við í keppninni. Ég vona að ég segi mig ekki úr samfélagi Íslendinga með því að játa að mér þótti pínu einkennilegt að þau hafi fengið að taka þátt. Hefði haldið að í öllum keppnum giltu þau lögmál að keppendur keppi við sömu aðstæður, á sama tíma. Álagið sem fylgir því að standa á sviði fyrir framan milljónir áhorfenda í sal eða sjónvarpi á úrslitastundu hlýtur að vera hluti leiksins. Kannski hægt verði að spara stórfé í framtíðinni með því að láta fimleika- og skautafólk senda myndbönd af sér til dómara á Ólympíuleikum. Þau geta svo fylgst með sjálfum sér í „beinni“ útsendingu í sjónvarpinu í faðmi fjölskyldunnar. Það er miklu meira kósí.

Eurovision er skemmtilega hallærisleg keppni þar sem helmingur laganna er fluttur í sundbol og á hinn helminginn er betra að hlýða með lokuð augun. Í lítillæti sínu fær aðalnúmer kvöldsins, framkvæmdastjóri keppninnar sem af einhverjum ástæðum allir þekkja með nafni, starfsfólk sitt til að lofa sig í löngu máli í hvert sinn sem hann tekur til máls. Keppnin er sannkölluð orgía búningahönnuða og Twitter-notenda, ekki síður en stigakynna allra landa sem flytja heiminum óumbeðin skilaboð manngæsku og umburðarlyndis áður en þeir segja frá vinsælasta popplaginu. Epískt sjónvarpsefni!