Á mánudag birtist færsla á Twitter-aðgangi Monicu Lewinski. Þar sagðist hún „fagna tuttugu og fimm ára ártíð óhugnanlegasta og mesta áfalls sem hún hefði orðið fyrir á ævinni“, þegar starfsmenn FBI tóku hana höndum og færðu til yfirheyrslu í herbergi 1012 á Ritz-Carlton hótelinu.

Þar frétti Lewinski af Starr-rannsókninni sem myndi leiða til ákæru fyrir landsdómi á hendur Bill Clinton þáverandi Bandaríkjaforseta.

Upp hafði komist um leynilegt kynferðislegt samband Lewinski, sem þá gegndi lærlingsstöðu í Hvíta húsinu, og forsetans. Lewinski var hótað 27 ára fangelsisvist yrði hún sakfelld í öllum ákæruliðum sem innihéldu meinsæri og hindrun á framgangi réttvísinnar. Á endanum var Monicu boðin friðhelgi gegn því að bera vitni.

Undirrituð var tólf ára gömul á þeim tíma og fylgdist með fullorðna fólkinu reyta af sér brandara um bletti á kjólum. Lewinski var framreidd í fjölmiðlum sem heimskt bimbó með blásið hár og forsetinn í gráu jakkafötunum virtist ekkert sérlega miður sín, þrátt fyrir afsökunarbeiðni.

Ýmislegt hefur breyst á þessum tuttugu og fimm árum, en annað ekki. Monica hefur unnið úr áfallinu og leiðir í dag verkefni þar sem barist er gegn einelti gegn konum á opinberum vettvangi. „Ég var tuttugu og fjögurra ára,“ skrifar hún í færslunni á mánudag. Það þarf ekki að hafa fleiri orð um aðstöðumuninn og fáránleikann í viðbrögðum fjölmiðla og almennings árið 1998.

Hvernig hefði þetta farið á öld samfélagsmiðla? Þá má líka spyrja hvað hafi breyst. Aðgengi að opinberum vettvangi hefur aukist með tækninni. Hægt er að finna meðhlæjendur með flestum skoðunum og reikniritar samfélagsmiðla eru þróaðir til að styrkja skoðanir sem við höfum nú þegar myndað okkur.

Eitt sorglegt lögmál í mannréttindabaráttu er að þegar árangur næst eflist viðspyrnan og það höfum við fundið að kvöldi MeToo-byltingarinnar. Saman vinna þessar breytur að aukinni kvenfyrirlitningu og minna umburðarlyndi.

Í vikunni má finna afgerandi dæmi á alþjóðlegum vettvangi og tvö skýr dæmi hér heima um konur sem hafa sætt árásum af einu eða öðru tagi á opinberum vettvangi, að ósekju. Báðar eru ungar og hafa náð langt á sínu sviði. Kommentakerfin taka við og hópurinn sem ekki er sammála níðinu gjaldfellir þá orðræðu sem „hóp hálfvita með lyklaborð“.

Það er líka auðvelt að gjaldfella áhrifamátt haturs sem beinist ekki að manni sjálfum.