Ekkert lýðræði þrífst án upplýsingar. Ekkert samfélag dafnar án fræðslu og þekkingar. Og hverju þjóðlífi er hollast að kannast við fjölbreytileikann sem svo sannarlega er að finna innan þess.

Hinn kosturinn er þöggun og einsleitni.

Kæfandi afturhald.

Og hvoru tveggja þekkja landsmenn frá því fyrir hálfum mannsaldri eða svo, þegar lífið í landinu var sent út á svarthvítum sjónvarpsskjáum – og það í fleiri en einum skilningi.

Það er ekki lengra liðið.

Förum aftur til þessa tíma.

Ársins 1981, eða þar um bil.

Og tökum einfalt dæmi af þeim sem hér lemur lyklaborðið með tveimur vöskum vísifingrum. Ætli hann hafi ekki verið að klára menntaskóla um það leyti, svo til reynslunni ríkari, farinn að hnusa af óþreyju komandi tíma, með annan fótinn í íhaldssömum fortíðarpytti, hinn á heldur snjóþungum slóða umbótaheiðarinnar, sem hafði aldrei verið fær í hugum fólks.

Sterkasta minningin er þessi: Ég hafði skráð mig í Leikfélag Menntaskólans á Akureyri um leið og ég snerti fjalir gamla skólans frammi á brekkubrúninni í botni Eyjafjarðar. Það átti að æfa leikverkið Hlaupvídd sex eftir Sigurð Pálsson, svo til nýjan sjónleik skáldsins fræga með frönsku alpahúfuna, en fljótlega kom í ljós að leikstjórinn að sunnan, sem átti að setja upp stykkið á útmánuðum 1978, hafði ekki tíma til þess. Þá voru góð ráð dýr, var einhver leikstjóri á lausu? Og það var hringt yfir heiðar í óðagoti – og okkur til furðu var einn á lausu á þessum háannatíma sviðslistamanna, en sá var ekki fyrr lentur nyrðra en hann tók til óspilltra málanna við að velja okkur krökkunum hlutverk, fálmandi höndum í gríð og erg, eins og listamanna er siður.

Hann kvaðst heita Hörður Torfason. Og fljótlega rann upp fyrir einhverjum okkar í leikhópnum að þar væri kominn sami maðurinn og opinberaði kynvillu sína í tímaritsviðtali fáum misserum áður, fyrstur landsmanna. Einhverjir ypptu öxlum, aðra setti hljóða – og enn aðrir, sem höfðu jafnvel aldrei heyrt orðið hommi á lífsleiðinni, vissu ekki í hvaða leikriti þeir voru lentir.

Svo fréttum við líka af þeim vangaveltum skólayfirvalda hvort það væri yfirleitt viðeigandi að svona fólk að sunnan væri fengið til að stjórnast í viðkvæmum og leitandi landsbyggðarbörnum.

Það var kominn hommi í skólann.

Hörður Torfason kom til Akureyrar 9. febrúar 1978 og setti upp Hlaupvídd sex af einstöku listfengi og fagmennsku, svo og vel útilátinni útsjónarsemi á rösklega þremur vikum, en eftirminnileg er frumsýningin á afmælisdeginum mínum 6. mars, sem tókst svo fádæma vel. Svo var hann floginn suður, uppnuminn af árangri síðustu daga – og stofnaði Samtökin ´78 nokkrum vikum seinna í krafti leiftrandi leikstjórnarhæfileika sinna, skipaði Guðna Baldursson í hlutverk fyrsta formannsins af þeim ástæðum tveimur að hann ætti eigin íbúð og væri fagmenntaður ríkisstarfsmaður á Hagstofu Íslands, sem yfirvaldið ætti erfitt með að reka úr vinnu sakir sódómsku af heyrinkunnara taginu.

Sjálfur flúði Hörður svo land í sumarbyrjun. Leitaði skjóls í Danmörku. Ofsóttur í eigin landi, atvinnulaus, með líflátshótanir á bakinu og þaðan af skárri skammir, jafnt frá felmtri slegnum feluhommum sem fólki af öllu öðru tagi. Hvað væri hann að vilja upp á dekk með því að opinbera þetta allt saman? Mátti þetta ekki liggja í láginni? Áfram – og enn um sinn?

Ekki grunaði þá unga, saklausa strákinn, sem Hörður hafði leikstýrt á sviði Samkomuhússins á Akureyri, að fjórum árum seinna væri hann að taka fyrsta blaðaviðtal sinnar tegundar við yfirlýstan alkóhólista, Hilmar Helgason að nafni, sem kvaðst vera reiðubúinn að segja sögu sína án undanbragða af því að hann ræki eigið fyrirtæki og væri fjárhagslega sjálfstæður. Enginn hefði það af honum þótt hann dirfðist að tala fyrstur manna opinskátt um allan sinn drykkjuskap.

Og samfélagið saup hveljur. Hilmar opnaði Pandóru-boxið. Og alveg að óþörfu, að mati svo margra sem nutu sín nostursamlega í felum.

Stöldrum við þessi ártöl. 1978 og 1982. Þau vega salt á því herrans ári 1980 sem er miðja vegu á milli 1975 og 1985.

Sá áratugur breytti öllu.

Hann er merkilegasti áratugur í mannréttindasögu Íslendinga og kemur eins og rökrétt framhald af pólitísku umróti ungra menntamanna á sjöunda áratug síðustu aldar, þegar krafan um frjálsræði og umbætur kom sér fyrir í kolli margra. En svo var eins og sá hugsjónaeldur væri bara glóðir einar um sinn, árin mjökuðu sér yfir í hægri umferð – og landinn varð svo upptekinn og upp með sér af landhelgissigrunum, að hann áttaði sig jafnvel ekki á eldhafinu sem blossaði óvænt upp árið 1975.

Kvennafrídagurinn breytti öllu. Hann var nýtt upphaf. Fyrsta byltingin. Krafan um kvenfrelsi var slegin í gadda. Á sama tíma var Dagblaðið stofnað af framsýnasta blaðamanni landsins, Jónasi Kristjánssyni, sem varð upptakturinn að íslenskri rannsóknarblaðamennsku og stofnun Helgarpóstsins litlu seinna. Flokksblöðin byrjuðu að hiksta. Það mátti orðið skipta um flokk. Kvennalistinn varð til í mars 1983 í rökréttu framhaldi af sögulegu kjöri Vigdísar Finnbogadóttur 1980 og ónefndur er flokkur Bandalags jafnaðarmanna, sem skar upp herör gegn stöðnuðu embættismannakerfi á sama tíma.

Það var jafnvel farið að tala um það að afnema einokun ríkisins í fjölmiðlum. Og skrattakornið, að leyfa bjór – í alvöru.

Einsleitnin vék fyrir fjölbreytileikanum. Falsmynd samfélagsins var pakkað saman og hent á öskuhauga sögunnar. Hvert opinskáa einkaviðtalið rak annað, við fólk sem reyndist aldrei hafa passað í fjórflokksins forsteyptu mót. Fólk gat verið það sjálft. Af því að upplýsingin sigraði, í bland við þekkingu og vísindi.

Fram að því hafði ekkert heimilisof beldi þrifist á Íslandi, ekkert barnaníð, alkóhólismi þekktist ekki, hvað þá samkynhneigð og hinsegin kenndir – og svo var fólk með þroskahömlun bara geymt á hælum, bak við rimla, átti hvorki né mátti sjást, ekki frekar en geðtruflað fólk, ef það var þá til.

Svona var myndin. Forpokuð falsmyndin. Valdið var umlukið þögn og lygi.

En konur breyttu henni, svo og kjörkuð blaðamennska, einmitt óhlutdræg upplýsingin á kostnað íhaldssamrar hræðslu við eðlilegar umbætur.

Að ógleymdum sönnum sjálfstæðishetjum eins og Herði og Hilmari.

Höfundur er sjónvarpsstjóri Hringbrautar, sem rekin er af Torgi, sem jafnframt gefur út Fréttablaðið.