Í hugum flestra Íslendinga er hálendið stórt, stórbrotið og framandi, en líka heillandi og dásamlegt. Það nær yfir um 40 % af landinu okkar. Í frumvarpi um stofnun Hálendisþjóðgarðs er ráðgert að drjúgur hlut þess verði þjóðgarður.

Birgir Guðjónsson læknir og þjóðgarðaunnandi spyr í grein í Fréttablaðinu 22. apríl sl. hvort það geti passað að stunda megi veiðar í þjóðgarði. Hann lýsir unaðsstundum í þjóðgörðum í Bandaríkjunum þar sem slíkt er ekki heimilað, segir stærð þjóðgarða ekki skipta máli og að hann hafi orðið agndofa yfir rökum fyrir Hálendisþjóðgarði í frumvarpi sem er til umfjöllunar á Alþingi.

Hvað er verndað í þjóðgarði?

Ekki er til ein alþjóðleg uppskrift að því hvað má kalla þjóðgarð. Á undanförnum 150 árum hafa verið stofnaðir hátt í þriðja þúsund þjóðgarðar og þeir eru fjölbreyttir að stærð og gerð. Hver þjóð er frjáls um hvaða leið er valin. Oft, líka í því frumvarpi sem nú liggur fyrir, er valin sú leið að skipta þjóðgörðum í svæði eftir leiðbeiningum Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna. Þannig er verndarsvæðum skipt í sjö megingerðir; allt frá svæðum með mjög stranga vernd – til svæða þar sem heimiluð er sjálfbær hefðbundin nýting náttúruauðlinda. Mörg dæmi eru um vernd fagurs landslags, þar sem sveitir og borg og bæir eru með talin. Verndun sérstakra náttúruvætta er algeng, ekki síst í Bandaríkjunum. Einnig eru dæmi eru um algjöra friðun svæða, eins og Surtseyjar.

Verðmætin okkar

Hálendi Íslands er afar verðmætt vegna landslags, náttúrufars, vatnafars, gróðurminja, jarðminja og síðast en ekki síst vegna óbyggðra víðerna. Verðmætin liggja ekki síst í því hve fjölbreytnin er mikil og hve fágætt er að finna svo mikla fjölbreytni náttúrufyrirbæra á einu afmörkuðu landssvæði. Hálendið er eina verulega stóra svæðið sunnan heimskautsbaugs í Evrópu þar sem menn hafa aldrei haft búsetu og það er líklega stærsta óbyggða víðerni í Evrópu utan Svalbarða. Þegar víðerni eru vernduð skiptir stærðin sannarlega máli.

Hvað má nýta á hálendinu?

Svæði á hálendinu eru nýtt bæði til veiða og beitar, sem sannarlega teljast til hefðbundinna nytja. Slík svæði má því fella undir skilgreiningu Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna um verndarsvæði. Í frumvarpinu sem Birgir vísar til er tilgreint að nytjar á hálendinu skuli vera sjálfbærar, þ.e. ekki má ganga á og spilla þeirri auðlind sem nytjuð er. Orkumannvirki og uppbyggða vegi er ekki hægt að fella undir skilgreiningar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna og ber því að halda utan þjóðgarðsmarka.

Verðmætasta auðlindin

Að mati Landverndar er hálendið okkar ein verðmætasta auðlind Íslands, ef ekki sú verðmætasta. Því er mikilvægt að vernda hana og nýta með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Stærðarmörkin sem tilgreind hafa verið í frumvarpinu miðast við hálendislínu og þau svæði sem skilgreind hafa verið sem þjóðlendur.

Engin virkjanamannvirki innan þjóðgarðs

Svæðum með virkjanamannvirkjum er haldið utan þjóðgarðs, eru kölluð jaðarsvæði þar sem sýna þarf aðgæslu svo þau spilli ekki sjálfum þjóðgarðinum. Austasti hluti hálendisins er ekki með þar sem ekki hefur verið úrskurðarð um eignarhald á því svæði. Landvernd telur að það svæði eigi heima í Hálendisþjóðgarði framtíðarinnar.

Veljum bestu leiðina

Að mati Landverndar sýnir reynslan bæði hér á landi og víða erlendis að ekki býðst betri leið til að vernda hálendi Íslands, tryggja aðgengi almennings og stýra umgengni og nýtingu, en með stofnun þjóðgarðs. Reikna má með að ásókn í að nýta hálendið fari vaxandi. Það er því tímabært að stofna þjóðgarð.

Framlagt frumvarp um Hálendisþjóðgarð sem nú er til umfjöllunar á Alþingi er málamiðlun og byggir á áralangri vinnu og samráði. Vissulega eru sjónarmið ólík og umtalsverð ágreiningsmál óleyst. Ytri mörk þjóðgarðsins eru líklega eitt þeirra álitamála sem þingmenn munu skoða vel. En reynslan af þjóðgörðum á Íslandi er að þeir hafa hægt og bítandi verið stækkaðir og reynt hefur verið að ná almennri sátt um hvert skref. Það er viðfangsefni Alþingis nú á vorþingi að leysa spurninguna um stærðina, sem og önnur álitamál um þjóðgarðinn. Vonandi tekst þingmönnum að leysa það viðfangsefni þannig að flestir geti við unað.

Höfundur er formaður Landverndar.