Tryggvi Felixson formaður Landverndar skrifar ágæta grein í Fréttablaðinu 4. maí sem andsvar við grein minni í Frbl. 21. apríl. Okkur greinir á um skilgreiningu á þjóðgarði. Tryggvi vitnar til Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna Inter­national Union for Conservation of Nature and Natural Resource, IUCN. Þau voru stofnuð árið 1948 af svissneska náttúrverndarráðinu, frönsku ríkisstjórninni og UNESCO. Aðildarríki eru nú 86 þjóðríki, þar á meðal Ísland.

Markmið IUCN er m.a. skilgreint að hafa áhrif á þjóðfélög til að vernda ÓRASKAÐA náttúru. Þetta er alveg í samræmi við 150 ára gamla óvéfengjanlega, upprunalega skilgreiningu á National Parks. Ekkert er minnst á skrúðgarða.

Hætt er við að þjóðgarðsunnandi erlendir gestir sem á að draga að „Hálendisþjóðgarðinum“ verði hissa og telji sig blekkta en hafi kannski gaman af, að sjá skógræktar- og landgræðsluhópa önnum kafna við að búa til gamlan þjóðgarð og bæta kannski við svo sem einum goshver.

Þeim yrði bilt við að heyra skothvelli veiðimanna. Þeir kannast ekki við slíkt úr öðrum þjóðgörðum. Þeir teldu sennilega vissara að vera í rauðgulum vestum til að auðkenna sig og verða ekki misteknir sem veiðibráð, eins og gerist á veiðitíma í Norður-Ameríku og jafnvel Norðurlöndum.

Það er sjálfsagt að nýta, vernda og friðlýsa hálendið en það verður ekki ÞJÓÐGARÐUR (NATIONAL PARK) samkvæmt alþjóðlegri skilgreiningu, þrátt fyrir óskhyggju og lagasetningu eins og sett er fram í frumvarpi.