Á þriðjudag var sérstök umræða á Alþingi um loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Egyptalandi (COP27) sem haldin var í lok síðasta árs og um markmið Íslands í loftslagsmálum. Loftslagsmálin eru stærsta áskorun samtímans og COP ráðstefnan er stærsti alþjóðlegi vettvangurinn þar sem þau eru til umfjöllunar. Það er alltaf við hæfi að ræða loftslagsmálin á þinginu, eins og í samfélaginu öllu.

Ísland er meðal þeirra ríkja sem hafa sett sér háleitustu markmið í heimi þegar kemur að loftslagsmálum. Auk þess að fylgja öðrum Evrópuríkjum í því þá setti ríkisstjórnin sér enn háleitari markmið.

Sjálfstæð markmið Íslands eru kolefnishlutlaust Ísland árið 2040, að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja og, það sem er næst okkur í tíma, 55% samdráttur í losun á beina ábyrgð Íslands.

Þessi markmið og áskoranirnar sem þeim fylgja eru ekkert smáræði. Við verðum að hafa hraðar hendur ef við ætlum okkur að ná þeim.

Til þess að ná 55% markmiðinu verðum við að draga saman losun um 1,3 milljónir tonna. Meginþorri þeirrar losunar er í samgöngum á landi. Við verðum því að hlaupa á ógnarhraða í grænu orkuskiptin til þess að ná þessu markmiði.

Á síðasta ári stigum við gífurlega mikilvæg skref í orkuskiptum. Við rufum níu ára kyrrstöðu með samþykkt þriðja áfanga rammaáætlunar. Við kláruðum aflaukningarfrumvarpið sem heimilar stækkun á virkjunum í rekstri. Orkusjóður styrkti orkuskiptaverkefni um rúman milljarð og við einfölduðum styrkjaumhverfi til umhverfisvænnar húshitunar.

Nú stendur yfir endurskipulagning umhverfisráðuneytisins og undirstofnana þess með það fyrir augum að vera betur í stakk búin að ná þessum gífurlega háleitu markmiðum. Markmið endurskipulagningarinnar eru margþætt en fyrst og fremst að skipulagið þjóni verkefninu sem er fram undan.

Höfuðáherslan fram á veginn verður að vera sú að við beinum kröftum okkar í að ná settum markmiðum en ekki að setja okkur ný markmið. Nóg er af verkefnum, nú þarf að framkvæma.