Fram til ársins 2015 þótti afgreiðsla útlendingamála í ákveðnum ólestri. Reglulega stóðu öll spjót á dómsmálaráðherra, þegar hann tók ákvörðun um að vísa fólki úr landi sem ekki uppfyllti lagaskilyrði um dvalarleyfi. Það þótti ótækt að pólitíkus væri að skipta sér af því hverjir fengu að setjast hér að. Virtar alþjóðastofnanir gerðu einnig athugasemdir við aðkomu ráðherra að slíkum málum og lögðu til að ákvörðunarvaldið yrði fært úr hans höndum.

Lögum var því breytt og í stað ráðherra skyldi nefnd óháðra sérfræðinga eiga síðasta orðið. Þessari kærunefnd var ætlað að starfa eftir almennum reglum, þar sem pólitík og dægurþras ættu enga aðkomu.

Ákvörðun sjö manna kærunefndarinnar í máli egypsku Khedr-fjölskyldunnar fór ekki fram hjá neinum. Nefndin taldi að vísa ætti fjölskyldunni úr landi og kallaði niðurstaðan á forvitnileg viðbrögð. Þeir sem áður höfðu krafist hlutlausrar málsmeðferðar sérfræðinga, í stað pólitískra afskipta, kölluðu eftir því að ráðherra beitti sér í málinu og tæki fram fyrir hendur kærunefndarinnar. Pólitískt mat átti nú að trompa það faglega. Voru bæði dóms- og félagsmálaráðherra sakaðir um mannréttindabrot gegn fjölskyldunni.

Fyrir ráðherra er þetta vonlaus staða til að vera í og það hljóta allir að sjá að þetta fyrirkomulag gengur ekki. Annaðhvort liggur ákvörðunarvaldið hjá ráðherra eða kærunefndinni. Það getur ekki legið hjá báðum. Það verður ekki bæði haldið og sleppt.

Það er yndislegt fyrir Khedr-fjölskylduna að fá að búa hér áfram og ég óska henni innilega til hamingju með niðurstöðuna. Á sama tíma verður þó ekki hjá því komist að gera athugasemd við aðferðafræðina að baki, sem hlýtur að teljast í ákveðnum ólestri.