Ég myndi ekki segja að ég væri nískur, frekar sparsamur.

Ég er hagsýni heimilisfaðirinn sem heldur fast um budduna og fylgist með útgjöldum hvers mánaðar í snjöllu forriti sem flokkar færslur eftir tegund. Nýlega fór ég af stað með sparnaðarátak. Mig langaði að sjá hvort ég gæti minnkað útgjöldin mín í ákveðnum flokkum.

Ég ákvað að skipta þessu í þrjá meginflokka, mat, fatnað og afþreyingu.

Matarinnkaupin eru einföld, versla frekar í stórmörkuðum í stað þess að kaupa dýran skyndibita og ef farið er út að borða á dýra staði þá ekki oftar en einu sinni í mánuði.

Næst eru það fötin. Fyrir nokkrum árum reyndi ég að spara í fatainnkaupum og tók tímabil þar sem ég sleppti því að kaupa föt í tvö ár. Hef gert það áður, get gert það aftur.

Afþreying verður aðeins flóknari. Lífsnauðsynleg. Dægradvöl, eitthvað til að stytta sér stundirnar í amstri dagsins og lýsa upp sótsvartan raunveruleikann og skammdegið sem hellist yfir mann svona á haustmánuðunum.

Músareyrun með fallega kastalanum, geislasverðunum og ofurhetjupakkinu fengu að fjúka. Púff, um það bil 1.000 króna sparaðar á mánuði. Ekki langar mig að missa sænska græna vin minn sem gefur mér tónlist og hlaðvörp á færibandi. Síðast en ekki síst, konungur streymisveita, rauði risinn.

Veitan sem byrjaði þetta allt, Netflix. Ef ég myndi losa mig við hana, hvað ætti ég þá að horfa á? Er búinn að vera samfleytt með áskrift þarna síðan 2016, ekki langar mig að brjóta það streak. Kannski get ég sleppt því í einn mánuð og horft bara á Youtube og látið mata mig með ömurlegum auglýsingum á 5 mínútna fresti.

Allt til þess að spara rúmar 1.500 krónur á mánuði. Auðvitað er æðisleg afþreying að fara í bíósal með vinum og komast aðeins út úr húsi og upplifa raunveruleika annarra í 90 mínútur eða svo.

Þá datt mér annað í hug. Af hverju myndi ég ekki reyna að lifa lífinu þannig að hver dagur yrði eins og bíómynd? Kannski svolítið dramatísk yfirlýsing, en ekki ómöguleg. Lifa hvern dag eins og hann sé sá síðasti og prófa eitthvað nýtt á næstum hverjum einasta degi.

Taka upp ný áhugamál sem þurfa ekki að kosta hálfan handlegg. Spjalla við fólkið í heitapottinum eins og ég sé að stýra mínum eigin spjallþætti. Heimsækja ættingja sem maður hittir kannski einu sinni á ári í fjölskylduboðum.

Fara út að plokka rusl, fara í göngutúr. Hætta að hugsa að hlutir sem séu skemmtilegir þurfi að kosta pening. Setjast niður og skrifa pistla eins og þessa, það er dæmi um nýtt áhugamál hjá mér og það kostar ekki krónu.