Undanfarið hefur verið fjallað um vanda álvers Ríó Tintó í Straumsvík. Þar hafa mál þróast á þann veg að til greina kemur að hætta starfsemi álversins, segja upp starfsfólki og skella í lás.

Það eru slæmar fréttir. Í fyrsta lagi varða tíðindin beina hagsmuni nærri fjögur hundruð starfsmanna fyrirtækisins og fjölskyldur þeirra. Þá er ótalinn sá fjöldi manna sem starfar hjá fyrirtækjum sem hafa lifibrauð sitt af þjónustu við álverið.

Í öðru lagi er það áfall fyrir hagkerfið ef 60 milljarða útflutningstekjur álversins hverfa úr efnahagsjöfnu þess. Þá eru ótalin þau gjöld sem fyrirtækið greiðir til samfélagsins í formi skatta og annarra opinberra gjalda og nema milljörðum, beint og óbeint.

Að síðustu, þeir hagsmunir sem felast í raforkukaupum álversins. Þeirrar orku er aflað að stærstu leyti með fokdýrri virkjun vatnsfalla.

Frá því þessi tíðindi bárust hafa sjónir manna beinst að því að rekstur Ríó Tintó hefur ekki borið sig um langa hríð. Markaðurinn sagði frá því í vikunni að frá árinu 2016 nemi tap álversins 21 milljarði króna.

Það vakti því nokkra athygli að greiddur hafi verið sérstakur arður út úr hinu íslenska rekstrarfélagi til móðurfélagsins, Ríó Tintó, árið 2017, að fjárhæð 130 milljónir dala. Það jafngildir tæpum fjórtán milljörðum íslenskra króna, sé miðað við meðalgengi þess árs. Það er ekki lítið fé og hefði sjálfsagt komið að góðum notum nú í rekstri álversins.

Í umfjöllun Markaðarins kom fram að álverið í Straumsvík er annar stærsti viðskiptavinur Landsvirkjunar og um 23 prósentum af framleiddri raforku Landsvirkjunar sé veitt til álversins.

Um þessi raforkuviðskipti er leyndarsamningur og er löngu tímabært að létta þeirri leynd, eins og Landsvirkjun hefur óskað eftir. Gengið er út frá því að samningurinn bindi aðila hans um þau viðskipti til ársins 2036, bæði hvað varðar skylduna til að kaupa orkuna og verð hennar. Óljóst er að hvaða leyti móðurfélagið er skuldbundið Landsvirkjun um þessi viðskipti.

Þrátt fyrir mikilvægi þessarar starfsemi fyrir þjóðarhag er ekki boðlegt að vikið verði frá skýrri skuldbindingu um verð orkunnar né kaup hennar. Hinn alþjóðlegi álrisi, Ríó Tintó, á ekkert inni hjá okkur og miklu skiptir að fylgja eftir skuldbindingum fyrirtækisins með þeim aðferðum sem eru tiltækar. Arðgreiðslan sérstaka sýnir líka að á þeim bæ hugsa menn fyrst og fremst um eigin hagsmuni.

Í Markaði liðinnar viku kom fram að Deutsche Bank hefur greint stöðu álvera utan Kína. Í þeirri greiningu er álverið í Straumsvík í 24. sæti yfir óhagkvæmustu álverin. Jafnframt kom fram að móðurfélagið Ríó Tintó hefur bæði selt og lokað álverum í stórum stíl um alla Evrópu og er nú svo komið að álverið í Straumsvík er eina álver félagsins í álfunni. Það væri heimóttarskapur að gefa eftir mikilvæga hagsmuni til að viðhalda þessari óhagkvæmni

Um þetta atriði verður að treysta því að Landsvirkjun gæti hagsmuna sinna sem liggja samsíða ærnum þjóðhagslegum hagsmunum.