Nú þegar hefur borist tilkynning til íþróttahreyfingarinnar frá stjórnvöldum um að allt skipulagt íþróttastarf skulli fellt niður í samkomubanni og jafnvel lengur veltum við eðlilega fyrir okkur hvernig við getum tryggt að fólkið sem kemur að skipulögðu íþróttastarfi, þ.e. íþróttafólkið, aðstandendur, þjálfarar, starfsfólk og aðrir missi ekki móðinn ef að litlu verði að hverfa þegar upp verður staðið. Höfum í huga að mörg álfusambönd og landssambönd íþróttagreina hafa frestað og fellt niður keppni sem áætluð var nú á vordögum og jafnvel í haust.

Það algengt í þessum óvenjulegu aðstæðum að fólk “vinni að heiman”, á vinnustöðum og víðar gildi “tveggja metra bil milli einstaklinga” og allir “snertifletir sprittaðir reglulega”. Samkvæmt tilmælum sem bent er til íþróttahreyfingarinnar “…mælast heilbrigðisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti til þess að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu, þar til takmörkun skólastarfs líkur.”. Og Reykjavíkurborg hefur t.a.m. fellt niður alla tíma fyrir skipulagða íþróttastarfssemi í íþróttaaðstöðu borgarinnar.

Við þurfum að gæta hvert að öðru og vera lausnamiðuð í þessu ástandi. Ef við setjum ofangreint í samhengi þá hefur “fjarsundsbúnaður” ekki enn verið fundinn upp og handknattleik og körfuknattleik er illa hægt að stunda með tveggja metra reglunni, hvað þá ef spritta þarf boltann eftir hverja snertingu. En það þýðir ekki að þjálfarar og annað starfsfólk íþróttafélaga og sambanda eigi bara að sitja heima með hendur í skauti. Nú er tækifærið að efla félagsandann, vera skapandi og finna upp á nýjum verkefnum til leggja fyrir íþróttafólkið án þess að brjóta gegn tilmælum stjórnvalda. Verkefnin þurfa á einhvern hátt að viðhalda áhuga, þeim árangri sem þegar hefur náðst og þau þurfa að hvetja einstaklinginn til að koma aftur inn í skipulagt íþróttastarf þegar þetta sérstaka tímabil er yfirstaðið. Í íslenskum íþróttafélögum starfar óhemjufjöldi af hæfileika- og hugmyndaríkum þjálfurum sem með fagþekkingu og samtakamætti standa undir þessu óvenjulega verkefni. Við treystum því að þetta góða fagfólk vinni saman að þessu risaverkefni. Við hin þurfum að vera tilbúin á hliðarlínunni, aðstoða og hvetja eftir mætti og koma svo kraftmikil aftur til starfa með íþróttafólkinu.

Þetta leiðir einnig hugann að fjárhag íþróttahreyfingarinnar. ÍSÍ og sérsambönd þess þurfa að undirbúa samtal við ríkisstjórnina og sveitarfélög um sérstaka styrki fyrir einstök íþróttafélög og íþróttagreinar. Fjárhagserfiðleikar sem skapast óhjákvæmilega vegna þessa ástands mega ekki óbætanlegum skaða á því góða starfi sem unnið hefur verið í íþróttahreyfingunni á liðnum árum.

Við erum öll í almannavörnum.

Höfundur er fyrrverandi formaður Sundsambands Íslands.