Nærri lætur að fimmti hver vinnandi maður starfi í þágu hins opinbera, ríkis eða sveitarfélaga.

Þetta er athyglisvert um þessar mundir þegar störf þorra manna á almennum vinnumarkaði eru í aðsteðjandi uppnámi. Því veldur veiruváin sem hefur veist með svo ófyrirleitnum hætti að stoðum samfélagsins að rekstur atvinnufyrirtækja er í hreinni óvissu að aðstæður breytast dag frá degi og þúsundir umsókna um hlutabætur og atvinnuleysisbætur berast Vinnumálastofnun daglega.

Einn er þó sá hópur vinnandi manna sem gengur að störfum sínum vísum, nær sama hvað á dynur. Það eru starfsmenn ríkis og sveitarfélaga. Hið opinbera er fyrirferðarmikið hér á landi og illa gengur að stemma stigu við auknum umsvifum þess þrátt fyrir margvísleg slagorð stjórnmálahreyfinga liðinna tíma.

Það er auðvitað ekki sérstök lausn að krefjast breyt-inga á því nú við þessar aðstæður og myndi líklega gera illt verra. En það er ástæða til að velta því fyrir sér hvers vegna ekki eru sett fram áform um forgangsröðun og hagræðingu í rekstri hins opinbera, þegar útgjöld þess stökkbreytast með efnahagsaðgerðum ríkis og sveitarfélaga og búast má við að enn eigi eftir að auka þá íhlutun ef takast á að forða stórfelldu langtíma atvinnu-leysi hér. Viðbúið er að seilst verði í vasa skattgreiðenda þegar þessu fári slotar og álögur auknar til að mæta tekjutapinu og standa undir rekstri ríkis og sveitarfélaga.

Ekki má skilja orð þessi svo að þeim sé raðað saman af andúð á störfum fyrir hið opinbera, en kjarabarátta opinberra starfsmanna hefur meðal annars falist í kröfu um að deila kjörum með starfsmönnum á almennum vinnumarkaði. Sá reginmunur er þó á að opinberir starfsmenn búa við margfalt starfsöryggi á við aðra. Það sýnir sig best um þessar mundir.

Á komandi misserum hlýtur því að verða velt upp hvort ekki sé ástæða til að draga saman seglin í opinberum rekstri. Búast má við að samdrátturinn í efnahagslífinu vari um nokkurra missera skeið og hlýtur að hafa sín áhrif á verkefni hins opinbera, þó þess gæti síður í bráðnauðsynlegum verkefnum mennta- og heilbrigðiskerfis, umönnun og félagslegum stuðningi, svo dæmi séu tekin.

Um 160 opinberar stofnanir eru starfræktar hér á landi. Það hljóta að leynast sameiningartækifæri meðal þeirra. Þó verkefni þeirra kunni að vera sumpart ólík eru samlegðaráhrif sameiningar ríkisstofnana ótvíræð.

Sama gildir um sveitarfélög. Þau eru nú ríflega 70. Sum eru fjölmenn og önnur fámenn. Ráðagerð er um að fækka þeim á nokkurra ára bili um meira en helming með því að skilgreina lágmarksfjölda íbúa þeirra. Þannig er þvinguð fram hagræðing sem ekki virðist nást fram með öðrum hætti. Nægan tíma hafa menn haft til þess. Þessari aðferð hefur ekki alls staðar verið fagnað en hún er nauðsynleg og mun leiða til betri þjónustu við íbúa og ekki síður hagræðingar.

Að öllu samanlögðu er tímabært fyrir stjórnvöld að leggja á ráðin um hvernig hluta fjárhagsáfalls hins opinbera verður mætt með skýrri forgangsröðun og hagræðingu þegar fram líða stundir.