Eitt af því sem er einna óumdeildast í opinberri umræðu er hugmyndin um stærðarhagkvæmni. Það virðist nánast algjörlega óþarft að deila um það hvort betra sé að hafa hlutina færri og stærri eða fleiri og smærri. Ef hægt er að sameina til að stækka þá er það nánast alltaf álitið augljóslega skynsamlegt, en hugmyndin um að sundra til að smækka virkar hreint og beint fráleit.

Í stjórnmálum er það nánast óumdeild mantra að það sé miklu betra að hafa færri og stærri stofnanir heldur en minni einingar, sem eru oftast afgreiddar sem „óhagkvæmar“ algjörlega án þess að um það þurfi að ræða nánar. Í marga áratugi hefur umræðan um sameiningu sveitarfélaga til dæmis verið álitin ein af þeim sem sé í algjörri einstefnu, það sé ekki spurning hvort heldur hvenær smærri sveitarfélög gefist upp á sjálfstæðinu en gerist hluti af hagkvæmari skipulagsheild (oftast með leiðinlegra nafni). Í staðinn fyrir að hafa fullt af litlum bæjarstjórum í litlum ráðhúsum þá virðist lítt umdeilt að betra sé að hafa örfáa stjórnsýslufræðinga á ráðherralaunum í embættum bæjarstjóra að sýsla með hagkvæmnisrannsóknir, ferlaúttektir, stefnumótunarinnleiðingar og miðlæga áætlanagerð. Rökréttasta niðurstaðan væri vitaskuld að halda bara áfram að sameina allar smáu og óhagkvæmu einingarnar þar til einungis ein er eftir, og leita þá eftir að sameina hana einhverju jafnvel ennþá stærra bákni þar sem hagkvæmnin myndi ríkja ein.

Agaðir ferlar í stærri heildum

Sama hugsun ríkir vitaskuld mjög eindregið í öllu sem snýr að fyrirtækjarekstri, þar sem það þykir sums staðar varla taka því að reka eina eða tvær verslanir, hótel eða veitingastaði. Allt þarf að vera hluti af stærri heild svo hægt sé að móta verkferla, draga úr yfirbyggingu, auka hagkvæmni í innkaupum og þar frameftir götunum. Einhvern veginn virðist það vera sameiginleg niðurstaða hlutabréfamarkaðarins, bankakerfisins og ráðgjafarfyrirtækja um heim allan að það sé vitavonlaust fyrirkomulag að tugir einstaklinga um land allt reki hver sína litlu vegasjoppu, dekkjaverkstæði, veitingastað eða hótel. Allir virðast sammála um að best sé að hafa einn stóran forstjóra sem stjórnar tíu verslanastjórum, hótelstjórum eða dekkjaverkstæðisrekstraraðilum.

En víðast hvar eru takmörk fyrir hagkvæmni stærðarinnar. Fyrir utan hið augljósa, að samkeppni og samanburð þarf til þess að fólk, fyrirtæki og sveitarfélög haldi áfram að gera sitt besta—þá er auðvitað alls ekkert sjálfgefið að mantran um stærðarhagkvæmni sé endilega alltaf sönn. Í mjög stórum rekstrareiningum er fyrst og fremst ætlast til þess að starfsmenn sýni fram á hollustu og hlýðni gagnvart yfirboðurum og kerfinu. Raunverulegt frumkvæði, svo ekki sé nú talað um þrjósku eða sérvisku, eru að jafnaði ekki sérlega eftirsóknarverðir eiginleikar á vinnumarkaði. Þetta er ekki sagt stórum fyrirtækjum til hnjóðs. Þetta er einfaldlega eðli þeirra—hinn raunverulegi kjarni stærðarhagkvæmninnar er að auka aga á kostnað sköpunar. Í staðinn fyrir að hundrað manns finni upp hjólið hver í sínu lagi, þá finnur einn upp hjólið og sýnir hinum hvernig á að búa það til. Til að ná fram hagkvæmni þarf aga en á móti kemur sá kostur að það verður ódýrara og hraðvirkara að framleiða hjólin. Kosturinn við smærri og fleiri einingar getur hins vegar verið sá að í staðinn fyrir að einn finni upp hjólið og hundrað framkvæmi, þá eru hundrað að leitast við að finna sniðugar leiðir til þess að uppfylla þarfirnar sem hjólið getur leyst. Hugsanlega munu einhverjir þeirra fá hugmyndina um hjólið, margir munu standa á gati—en auðvitað er líka möguleiki á að einhverjum takist að finna upp eitthvað allt annað en hjól; kannski kúlu—sem leysir á ennþá snjallari hátt úr viðfangsefninu sem hjólið hefði dugað í.

Hefðum við mátt spara sóttvarnalækni?

Það hefur til dæmis komið ágætlega í ljós á síðustu mánuðum að það er alls ekki sennilegt að það hefði verið mikill sparnaður í því ef Íslendingar hefðu í einhverjum hagkvæmnistryllingi ákveðið leggja niður embætti sóttvarnalæknis. Þó er ekki víst að það sjónarmið hefði fengið mikla viðspyrnu fyrir örfáum árum að það væri galin yfirbygging að reka slíkt embætti í svona fámennu landi þegar hver heilvita maður veit að heil öld er liðin frá síðustu alvörufarsótt.

Það sem hefði virkað sem mjög hagkvæm ráðstöfun í hagkvæmnisútreikningi hefði hugsanlega leitt til þess að á Íslandi hefði ekki verið til staðar sjálfstæður undirbúningur, verkþekking, valdskipting eða útbúnaður. Sú staða er alls ekki óhugsandi að Ísland (og mörg önnur ríki) hefði bara þurft að bíða eftir fyrirmælum annars staðar frá áður en gripið væri til aðgerða, og þá hefðu jafnvel ekki verið til taks þau tæki, tól og þekking sem þarf.

Fleiri og smærri

Í því ástandi sem nú er í atvinnulífinu mætti líka spyrja sig áþekkra spurninga. Værum við sneggri eða lengur að koma okkur upp úr COVID-kreppunni ef um land allt væru eigendur smárra fyrirtækja hver um sig að leita leiða til þess að styrkja grundvöllinn undir sínum rekstri? Eða er betra að stór fyrirtæki og hagsmunasamtök setji fram þrýsting á stjórnvöld og allir aðrir bíði í ofvæni eftir því hvaða bjargráð og úrlausnir ríkisstjórnin kynni í næsta „pakka“?

Það er nefnilega mikill munur á því að vera annars vegar starfsmaður með skyldur gagnvart yfirmanni, eða eiga raunverulegan hlut í rekstri og ákvarðanatöku; og skyldur gagnvart viðskiptavinum og samstarfsfólki.

Er víst að betra sé að sameina í stórar stofnanir verkefni sem hvert um sig býr við ólíkar þarfir, sérþekkingu og skilning? Er það endilega betra að bæjarstjórar í stórum sameiginlegum bæjum fái tölvupósta um holur í vegum eða þurfi sjálfir að keyra yfir þær á hverjum degi þangað til þeir láta laga þær? Eða er betra, þegar áföll dynja yfir, að þeir sem fara með ábyrgð á ákvörðunum séu hugsanlega búsettir langt í burtu frá atburðunum eða sjálfir á vettvangi?

Ekkert af þessu er einfalt eða algilt. Á mörgum sviðum býður stærðarhagkvæmnin upp á óumdeilda kosti umfram smæðina. Á öðrum sviðum er það óljóst; en í ýmsum tilvikum læðist að manni sá grunur að smæðin, dreifða ábyrgðin og frumkvæðið, geti verið besta tryggingin fyrir raunverulegri hagkvæmni. Það er að minnsta kosti mikið umhugsunarefni einmitt á svona tímum hvort víða hafi verið gengið lengra í stærðarhagkvæmninni heldur en raunverulega er hagkvæmt.