Á borgarstjórnarfundi í dag leggur Sjálfstæðisflokkurinn fram tillögu um að breytingar verði gerðar á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem heimilar íbúðabyggð í Örfiris­ey og í Keldnalandinu. Þar verði áhersla lögð á uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir almennan markað. Enn fremur er lagt til að skipulagðar verði atvinnulóðir á Keldnasvæðinu með það að markmiði að koma á jafnvægi í borginni og minnka umferðar­álagið til vesturs. Þegar húsnæðisáætlun borgarinnar er skoðuð er gat upp á 4.000 íbúðir.

Borginni hefur undirfarin ár gengið illa að svara ákalli um hagkvæmt húsnæði fyrir almennan markað. Uppsöfnuð húsnæðisþörf borgarinnar hefur haft þær afleiðingar að fólk flyst í auknum mæli í nágrannasveitarfélög borgarinnar sem og á Reykjanesið og sveitarfélögin á Suðurlandi. Þá hefur flótti fyrirtækja og stofnana ríkisins úr borginni verið umtalsverður þar sem borgin hefur ekki boðið upp á heppilegar lóðir undir rekstur. Því má segja að verkefni borgarinnar hvað hagkvæmt húsnæði varðar hafi ekki gengið eftir, enda hafa verktakar ítrekað neyðst til að skila lóðum, sem ætlaðar voru undir hagkvæmt húsnæði vegna of mikils kostnaðar. Ástæður þess voru meðal annars hátt lóðarverð og innviðagjald. Augljós valkostur er að leyfa byggingu hagkvæms húsnæðis í Örfirisey í Vesturbænum annars vegar og á Keldnalandinu hins vegar. Ein forsenda samgöngusáttmálans er skipulagning Keldnalandsins. Jafnframt er lagt upp með það í Lífskjarasamningunum og tillögu ríkisins er varðar húsnæðisuppbyggingu fyrir alla, að Keldnalandið verði skipulagt fyrir íbúðabyggð og það hefjist á árinu 2019. Nýsamþykkt frumvarp um svokölluð hlutdeildarlán á Alþingi setur enn meiri þrýsting á Reykjavíkurborg um að huga að uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir almennan markað.

Það eru því sóknarfæri að hefjast handa við skipulagningu á svæði Keldnalandsins og í Örfirisey til þess að koma til móts við þarfir eftirspurnar um hagkvæmt húsnæði fyrir almennan markað, auk þess að koma í veg fyrir enn meiri flótta fyrirtækja og stofnana úr borginni.