Í grein minni í Frétta­blaðinu 21/7 hrakti ég gagn­rýni hag­fræði­prófessors á reiknings­skil og endur­skoðun til­tekins árs­reiknings. Hann heldur á­fram í grein í Frétta­blaðinu 26/7.

Laga- og reglu­verk

Prófessorinn full­yrðir rang­lega að undir­ritaður hafi haldið því fram að reglu­um­hverfi árs­­reikninga og endur­­­skoðunar sé svo traust að það sé ekki á færi hag­­fræði­­prófessora að bera brigður þar á. Hag­fræði­prófessorum er eins og öðrum heimilt að hafa skoðanir á þessu reglu­verki og þurfa ekki að vera sam­mála því, ekki frekar en undir­ritaður. Það breytir því ekki að fylgja þarf því laga- og reglu­verki sem í gildi er á hverjum tíma, hvort heldur menn eru sam­mála því eða ekki.

Endur­skoð­endur eru ekki ó­skeikulir frekar en aðrir menn, ekki einu sinni hag­fræði­prófessorar. Það er auð­velt að nefna dæmi þar um. Það er þó ekki hægt að yfir­færa at­vik þeirra mála yfir á aðra ó­við­komandi. Undir­rituðum er ekki kunnugt um að endur­skoðandi ís­lensks sjávar­út­vegs­fé­lags hafi verið dæmdur fyrir mis­gjörðir við endur­skoðun þess.

Þvert á það sem prófessorinn segir hefur undir­ritaður aldrei full­yrt að lög og reglu­gerðir annars vegar og gæða­eftir­lit með störfum endur­skoðenda „tryggi há­gæða niður­stöður“. Ætla má þó að þessar ströngu og miklu kröfur og utan­að­komandi gæða­eftir­lit með ströngum viður­lögum leiði al­mennt til betri og staðlaðri vinnu­bragða en væri án þeirra.

Endur­skoðun er undir gæða­eftir­liti og árs­reikningar eru undir gæða­eftir­liti. Stóru sjávar­út­vegs­fé­lögin eru nú skil­greind sem fé­lög tengd al­manna­hags­munum sem strangari reglur gilda um en al­menn fé­lög. Árs­reikningar þeirra og fé­laga á hluta­bréfa­markaði fá ítar­legri gæða­skoðun árs­reikninga­skrár. Ekki er kunnugt um að árs­reikninga­skrá hafi gert at­huga­semdir við með­ferð á afla­heimildum í efna­hags­reikningum.

Á­unnin ó­efnis­leg réttindi

Prófessorinn hefur rang­lega eftir undir­rituðum að munurinn á sölu­verði fyrir­­­tækisins Vísir hf. annars vegar og verð­­mætis eigin­fjár þess hins vegar sé til­­kominn fyrir þá sök að ó­­heimilt sé að færa verð­­mæti ó­efnis­­­legra réttinda til bókar. Þessu hefur undir­ritaður aldrei haldið fram og telur raunar frá­leitt að verð­myndun í við­skiptum ráðist af þessu.

Prófessorinn mistúlkar hvað átt er við með að árs­reikningur eigi að gefa glögga mynd. Hann bítur sig í að þessi glögga mynd eigi við um efna­hags­reikninginn einan en ekki árs­reikninginn í heild sinni, skýrslu stjórnar, rekstrar­reikning, efna­hags­reikning, sjóð­streymi og skýringar eins og lög og staðlar gera ráð fyrir. Það er vissu­lega heimilt að víkja í undan­tekningar­til­vikum til hliðar á­kvæðum árs­reikninga­laga ef árs­reikningur (í heild sinni) gefur villandi mynd. Prófessorinn vill túlka á­kvæðið þannig að það eigi við um árs­reikninga allra fyrir­tækja sem hafa á­unnið sér ó­efnis­legar eignir eða réttindi, svo sem afla­heimildir og við­skipta­vild. Það gilti þá um nánast öll fé­lög og væri ekki undan­tekningar­til­vik. Í árs­reikningum Vísis hf. eru ítar­legar skýringar um afla­heimildir fé­lagsins, afla­hlut­deild, afla­mark og afla­mark í þorsk­í­gildum fyrir hverja einustu fisk­tegund og síðan sam­tölur. Ef þessar skýringar gefa ekki glögga mynd af afla­heimildum fé­lagsins þá er erfitt að í­mynda sér hvað gerir það!

Hag­fræði­prófessorinn telur að Vísir hefði átt að meta afla­heimildir sínar í efna­hags­reikningi á bilinu 50-60 milljarða í stað 14 milljarða kostnaðar­verðs. Sam­kvæmt því hefði bók­fært eigið fé fé­lagsins í árs­lok 2021 verið um 43-53 milljarðar í stað 7 milljarða skv. sam­þykktum árs­reikningi. Þannig telur prófessorinn að glögg mynd náist og efna­hags­reikningurinn sýni „raun­veru­legt virði“ fé­lagsins. Fé­lagið var selt fyrir 20 milljarða eða innan við helming þess sem prófessorinn telur „raun­veru­legt virði“. Prófessorinn talar þannig fyrir „skapandi reiknings­skilum“ til að „blása upp“ eigið fé!

„Prófessorinn mistúlkar hvað átt er við með að árs­reikningur eigi að gefa glögga mynd. Hann bítur sig í að þessi glögga mynd eigi við um efna­hags­reikninginn einan en ekki árs­reikninginn í heild sinni“

Upp­lýsingar til hins opin­bera

Prófessorinn eftir rang­lega eftir undir­rituðum að greiðsla úr ríkis­­sjóði á grund­velli „gallaðra“ upp­lýsinga sé full­kom­­lega eðli­­leg. Undir­ritaður hefur aldrei haldið þessu fram heldur benti einungis á ó­smekk­leg orð prófessorsins um þá ríkis­starfs­menn sem unnu við af­greiðslu um­sókna um af­slátt af veiði­gjöldum.

Prófessorinn segir: „Jafn­ræðis­reglan gefur skýra vís­bendingu um að endur­­­skoðandinn þurfi að endur­­­skoða af­­stöðu sína hvað þetta at­riði varðar.“ Enn og aftur er prófessorinn með til­efnis­lausar í­myndanir um mína af­stöðu. Svo enginn velkist í vafa þá er af­staða undir­ritaðs skýr sú að ef menn eða fyrir­tæki hafa látið ríkinu í té rangar upp­lýsingar og fengið greiðslur frá því byggt á þeim eða greitt minna en átti að greiða til ríkisins vegna þeirra þá beri að sjálf­sögðu að leið­rétta greiðslur til sam­ræmis við réttar upp­lýsingar. Telji prófessorinn sig vita dæmi slíks ætti hann að koma þeim upp­lýsingum á fram­færi með form­legum hætti við rétta aðila innan stjórn­kerfisins í stað þess að vera með raka­lausar á­sakanir í fjöl­miðlum.

Vilji prófessorinn fá niður­stöðu í málið skorar undir­ritaður á hann að senda erindi til árs­reikninga­skrár varðandi inni­hald ein­stakra árs­reikninga sem hann telur ekki gerða á réttum for­sendum og til endur­skoð­enda­ráðs hafi hann at­huga­semdir við vinnu­brögð endur­skoðenda. Það eru réttir aðilar til að taka á því ef um slíka á­galla er að ræða sem prófessorinn heldur fram. Geri prófessorinn það ekki verður að líta á orð hans um árs­reikninga sjávar­út­vegs­fé­laga og endur­skoð­endur þeirra sem þá mark­leysu sem þau eru.

Há­skóli Ís­lands er með siða­nefnd og fínar siða­reglur sem sjá má á netinu, https://www.hi.is/haskolinn/sida­reglur. Undir­ritaður hefur á­kveðið að kæra hag­fræði­prófessorinn til siða­nefndarinnar enda ó­líðandi að prófessor á háum launum af skatt­fé saki aðra opin­ber­lega að til­efnis­lausu um fjár­svik, önnur lög­brot, van­hæfni, geri mönnum upp skoðanir, hafi rangt eftir mönnum, haldi í­trekað fram ó­sannindum o.s.frv. Með því skaðar hann orð­spor há­skólans.

Höfundur er lög­giltur endur­skoðandi.