Öllum hér á Íslandi ætti að þykja vænt um hafið sem umlykur eyjuna okkar. Hafið ber með sér Golfstrauminn (alla vega enn þá) og veldur milda úthafsloftslaginu sem gerir okkur kleift að búa hér. Hafið er frjósamt af næringarefnum og gefur okkur allan þennan fisk sem við veiðum á hverju ári. Því fylgir mikið ríkidæmi, sem mætti að vísu skipta jafnar.
En hvernig pössum við upp á hafið okkar? Hvað þýða hugtökin hafvernd og hafverndarsvæði? Þann 31. janúar skrifar Hörður Sigurbjarnarson grein í Fréttablaðið þar sem hann bendir á hve Íslendingar eru langt á eftir öðrum þjóðum hvað snertir að skilgreina ákveðin hafsvæði sem verndarsvæði. Í heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna stendur að 10 prósent af hafsvæðum skulu vera skilgreind sem verndarsvæði fram til 2020 til að stuðla að líffræðilegum fjölbreytileika og endurheimt vistkerfa auk sjálfbærra nýtingar þeirra. Við hér á landi stöndum okkur engan veginn í þessu átaki, erum með einungis 0,07 prósent hafsvæðis verndað.
En snúum okkur að öðru sem snertir hafið okkar. Í mörgum fjörðum er stundað fiskeldi í sjókvíum. Þessu fylgir skuggalega mikil mengun. Úrgangur úr fiskum og fóðurleifar sökkva til botns og skemma margbreytilegt lífríki. Eitur sem á að koma í veg fyrir laxalús hefur afar slæm áhrif. Plastagnir úr fóðurrörum dreifast um þessi svæði og lenda í meltingarfærum dýra og svo loksins líka í okkur. Það ætti skilyrðislaust að takmarka slíkt fiskeldi og koma því í land þar sem er hægt að ganga frá tilfallandi úrgangi á viðeigandi hátt. En það kostar, og menn verða kannski ekki ríkir á einni nóttu.
Óhemjumikið rusl safnast fyrir í sjónum, þó að menn hafa áttað sig á því að hafið tekur ekki endalaust við. Umgengni hefur batnað en betur má ef duga skal. Sérstaklega eru ónýt veiðarfæri slæm fyrir lífríkið og skelfilega mikið af þeim leynist á hafsbotni. Þetta verður að dauðagildru allskonar sjávardýra þegar þau flækjast í þeim.
Hvalveiðar eru auðvitað alveg úr myndinni hvað verndun hafsins snertir. Sú mýta að hvalir éti frá okkur allan fiskinn er auðvitað þvæla. Hvalir gegna mikilvægu hlutverki í lífskeðjunni. Margir þeirra nærast einungis á smádýrum. Þegar þeir deyja og sökkva til botns þá gefur stóri skrokkurinn næringu fyrir ótalmargar litlar lífverur sem koma aftur stærri lífverum til gagns. Þannig er það í heilbrigðum kerfum sem tryggja hringrásirnar í náttúrunni.
Það er því miður margt að hjá okkur hvað verndun hafsins snertir, því miður. Útnýting og græðgi eiga ekki að ráða heldur heilbrigð skynsemi sem tekur mark á langtímasjónarmiðum.