Í viðtali við Þorstein Víglundsson forstjóra eignarhaldsfélagsins Hornsteins ehf. móðurfélags Björgunar sem nefnt var: „Ótæk vinnubrögð hjá Minjastofnun“ koma fram rangfærslur og/eða misskilningur sem Minjastofnun Íslands telur mikilvægt að leiðrétta strax.

Allt frá upphafi hefur Minjastofnun Íslands vakið athygli á að sá staður sem Minjastofnun Íslands var kynntur sem nýtt athafnasvæði Björgunar á Álfsnesi er inni á mikilvægu minjasvæði sem Minjastofnun hefur lagt áherslu á að ekki sé fórnað fyrir stundarhagsmuni. Þetta viðhorf Minjastofnunar kom strax fram á fyrsta fundinum sem Minjastofnun var boðið á í febrúar 2017. Þar var kynnt fyrirætlun Reykjavíkurborgar og Björgunar um að flytja fyrirtækið á Álfsnes. Á þeim fundi kom fram að skoðaðir hefðu verið sex staðir í nágrenni Reykjavíkur sem taldir voru henta sem ný staðsetning athafnasvæðis Björgunar. Besta kostinn töldu þeir Gunnunes við Þerneyjarsund sem er hluti af Álfsnesi.

Á þeim fundi benti Minjastofnun Íslands á, að staðsetningin væri ekki góð með tilliti til menningarminja. Við Þerneyjarsund væri þekktur minjastaður, miðaldahöfn, skipalægi og kaupstaður í Álfsnesvík sem staðsetning Björgunar á Gunnunesi hefði áhrif á. Dr. Kristján Eldjárn fyrrverandi þjóðminjavörður og forseti ritaði um þessar minjar í grein sinni ,,Leiruvogur og Þerneyjarsund. Staðfræðileg athugun„ í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1980. Í greininni nefnir hann að allar minjar í kringum Niðurkot, sem er á áhrifasvæði Björgunar, væru friðlýstar. Auk þess væru á svæðinu búsetuminjar býlanna Glóru og Sundakots. Minjastofnun mælti strax með því að fundinn yrði annar staður fyrir starfsemina og hefur stofnunin haldið því til streitu alla tíð síðan. Stofnunin vakti athygli á að eftir væri að vettvangsskrá fornleifar á svæðinu og afla með því nauðsynlegra upplýsinga um minjar. Reykjavíkurborg fékk Borgarsögusafn til að skrá og meta fornleifarnar sem er forsenda þess að Minjastofnun Íslands geti veitt umsögn um fyrirhugaðar framkvæmdir. Safnið lauk vinnunni í júlí 2018.

Áður en fornleifaskráningin var unnin eða í júní 2017 var kynnt tillaga Björgunar og fyrirtækisins Alta um að færa athafnasvæði Björgunar austar á nesið en upphaflega var áætlað. Minjastofnun tók ekki afstöðu til þess þá vegna þess að fornleifaskráning lá ekki fyrir og benti stofnunin á að til þess að geta lagt mat á nýja staðsetningu þyrfti að skrá fornleifarnar eins og skylt er samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012.

Ári síðar eða í júlí 2018 var fornleifaskráningu svæðisins lokið og lá þá fyrir mat Borgarsögusafns, að um væri að ræða einstakt menningarlandslag í borgarlandslaginu með hátt varðveislugildi. Safnið benti á að um væri að ræða eina slíka staðinn í borgarlandinu. Um er að ræða þrjár samtengdar minjaheildir, verslunarstað og höfn frá síðmiðöldum og tvö bæjarstæði, Sundakot/Niðurkot og Glóru.

Frá þeim tíma að Minjastofnun barst fornleifaskráningin hefur stofnunin lagst eindregið gegn staðsetningu fyrirtækisins á þessum stað. Það hefur stofnunin gert á þeim fundum sem hún hefur verið boðuð á. Um afstöðu Minjastofnunar má lesa í öllum þeim umsögnum og erindum sem tengjast málinu og stofnunin hefur sent til Reykjavíkurborgar, Björgunar, ráðgjafastofunnar Alta, samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Skipulagsstofnunar.

Minjastofnun Íslands er ríkisstofnun sem starfar í umboði mennta- og menningarmálaráðherra og ber stofnuninni að gæta hagsmuna jarðfastra menningarminja landsins og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða eins og stendur í 1. gr. laga um menningarminjar. Það að ekki sé tekið tillit til athugasemda Minjastofnunar er alvarlegt mál. Ef þær upplýsingar og athugasemdir sem Minjastofnun hefur komið á framfæri í fjölda bréfa í gegnum árin hafa ekki skilað sér til forstjóra Hornsteins er það ekki á ábyrgð Minjastofnunar Íslands.

Í greininni fullyrðir forstjórinn að Minjastofnun hafi afþakkað frekari fornleifarannsóknir á svæðinu. Hér virðist um ákveðna vanþekkingu á lögum um menningarminjar að ræða. Fornleifarannsókn er annars vegar vettvangsskráning fornleifa og hins vegar fornleifauppgröftur og úrvinnsla úr honum. Fornleifaskráning er gerð til að leggja mat á mögulegar minjar og í framhaldi af því er annað hvort gerð krafa um varðveislu minjanna eða, ef samþykkt er að þær megi víkja vegna framkvæmda, er gerð krafa um fornleifauppgröft. Þar sem Minjastofnun hefur ekki samþykkt að minjarnar megi víkja er ekki tímabært að tala um mögulegan uppgröft. Þá er rétt að benda á að fiskbyrgin sem nefnd eru í greininni teljast til friðaðra fornleifa og þarf leyfi Minjastofnunar til að raska þeim.

Einnig má benda á að fornleifar eru ekki endilega sýnilegar á yfirborði og fornleifaskráning er tæki til þess að leggja mat á það hvort mögulega séu minjar á svæðum sem ekki sjást. Miðað við að þarna hafi verið byggð og starfsemi allt frá miðöldum má leiða að því líkum að töluvert sé af minjum undir sverði sem samkvæmt lögum um menningarminjar eru friðaðar.