Margir neita að horfast í augu við veruleikann. Þess vegna getur hópur stjórnmálamanna hagað sér með óábyrgum hætti og lofað öllu fögru í aðdraganda kosninga. Það sem hljómar betur fær oft betri hljómgrunn heldur en þurr og leiðinleg ráðdeild í ríkisrekstri eftir þungt efnahagslegt högg.

Það stefnir í að ríkissjóður verði rekinn með yfir 500 milljarða króna halla í ár og á næsta ári vegna aðgerða til að bregðast við Covid-19 heimsfaraldrinum. Við þær aðstæður ættu stjórnmálamenn ekki að keppast við að lofa stórauknum útgjöldum heldur að sýna ráðdeild. Samantekt Markaðarins leiðir í ljós að ýmsir stjórnmálaflokkar eru stórhuga í ríkisútgjöldum en hafa ekki fyllilega kortlagt hvernig skuli fjármagna þau þótt flokkarnir séu afar viljugir til að hækka skatta. Hafa ber í huga að skattar á Íslandi eru með þeim hæstu í OECD-ríkjunum.

Þetta getur reynst eitraður kokteill. Hærri skattar muni draga úr nýsköpun – sem loksins er að ná sér á strik – og hagvexti. Og halli á ríkissjóði getur kynnt undir verðbólgu. Seðlabankastjóri varaði við því á dögunum að aukin ríkisgjöld á sama tíma og atvinnulífið sé að sækja í sig veðrið muni kalla á stýrivaxtahækkanir til að hægja á einkageiranum. Kjósendur verða því að vanda valið vel í þingkosningum á laugardaginn.