Bílslysið hræðilega á Suðurlandi er áminning um að allt er í heiminum hverfult. Fórnarlömbin eru ungar fjölskyldur með allt lífið fram undan. Á einu augnabliki var stoðunum kippt undan tilveru þeirra. Við svona tíðindi verða þrætuepli hversdagsins smá. Fyllerísraus þingmanna á öldurhúsi skipta litlu. Það snerist hvorki um líf né limi – aðeins hugarheim þjóðkjörinna gasprara og orðspor þeirra sjálfra. Sama gildir um mörg önnur úrlausnarefni. Helstu fjölmiðlamálin hafa snúist um flugfélög og kjaraviðræður. Hvort tveggja eru mikilvæg mál sem botn þarf að fást í, en þau snúast ekki um heill og hamingju. Ísland verður áfram byggt þótt hægist á straumi ferðamanna um stund, og þótt þrasað verði um kjaramál eitthvað fram á vorið. 

Stundum þurfum við að muna að vera þakklát fyrir það sem okkur er gefið. Við búum í öruggu landi og njótum stöðugleika í stjórnmálum þótt sitt sýnist hverjum. Hörmungar á borð við styrjaldir, skipulagða kúgun og hungursneyð þekkjum við ekki. Nánast hvergi á byggðu bóli ríkir meiri jöfnuður, hvort sem litið er til eigna eða meðaltekna. Við erum ofarlega á flestum listum sem mæla lífsgæði. Fátækt er hverfandi – þótt vitaskuld þurfi að rétta hlut þeirra sem minnst bera úr býtum. Þar er verk að vinna. Við búum við nokkuð traust heilbrigðiskerfi og skólakerfið er gott á nánast alla mælikvarða. Okkur hefur tekist að búa til gott samfélag þótt ekki sé það gallalaust. 

Hæfileikafólk finnur sér farveg. Sigrar í listum og íþróttum, sem heimsbyggðin tekur eftir, vitna um það. Við erum í fremstu röð í jafnréttismálum, þótt brýnt sé að halda baráttunni áfram. Hér ríkir tjáningarfrelsi og öflugir fjölmiðlar eru starfræktir. Vandamál okkar eru í flestum samanburði fremur smávægileg – svokölluð fyrsta heims vandamál. Þrátt fyrir þetta má ekki gleymast að hér er fólk sem á um sárt að binda. Góð staða almennt ætti að gera okkur auðveldara að koma til móts við þá sem höllum fæti standa. Við eigum þrátt fyrir allt ekki svo langt í land. 

Voveiflegir atburðir minna okkur reglulega – því miður alltof oft – á ótrúlegar dáðir björgunarsveitanna. Þrautþjálfaðir sjálfboðaliðar þeirra eiga sér fáar hliðstæður og vekja aðdáun um lönd og álfur. Sitt sýnist hverjum um blys og flugelda og himinháar fjárhæðir sem fuðra upp um hver áramót. Þar togast á sjónarmið, sem sum eru ný í umræðunni. En hvað sem öðru líður: peningarnir eru ekki „brenndir“ til einskis – þeir eru lítið iðgjald fyrir frábæra þjónustu sem við getum ekki verið án. Verum þakklát um áramótin. Hættum þrasinu um stund. 

Gleðilegt nýtt ár.