Starfsemi leik- og grunnskóla hér á landi er almennt séð mjög góð. Menntunarstig kennara er hátt og er metnaður lagður í starf kennara með börnunum. Á því leikur enginn vafi.

Samt verður ekki um það deilt að starfsemi leikskóla landsins stendur á ákveðnum tímamótum. Sveitarfélögin sem reka leikskólana hafa lagt sífellt meira í þá og aukið þjónustustig þeirra. Nú er svo komið að erfiðlega gengur að uppfylla þjónustukröfurnar því starfsmannavelta er mikil ásamt því að mannekla er viðvarandi vandamál. Manneklan leiðir til þess að börn eru send heim, sum fá ekki pláss eða fá það seint, og álagið á starfsfólkið er of mikið.

Lausnirnar

Þegar stjórnmálafólk ræðir um lausnir á þessu er oftast talað um hvernig gefa megi ennþá meira í og koma enn betur til móts við þarfir foreldra sem þurfa að uppfylla sínar vinnuskyldur. Þá er einnig oft farið í það að leita að hverjum og hverju sé um að kenna, af hverju það gangi nú ekki nægilega vel að uppfylla þjónustukröfurnar. Þarna er eingöngu verið að horfa í framboðshliðina og verið að keppast um hvernig auka megi framboðið. Um þetta eru flestir bæði til vinstri og hægri sammála. Víða hefur náðst góður árangur í að manna stöður en samt er alltaf eins og eitthvað vanti upp á.

Hér viljum við Píratar koma með annan vinkil á ástandið. Vinkil sem leikskólastarfsfólk hefur sjálft bent á. Til að mynda hefur Samráðsnefnd Félags stjórnenda leikskóla viðrað ákveðnar áhyggjur út frá skýrslu OECD sem sýnir að íslensk leikskólabörn eru með lengstu daglegu viðveruna og flesta leikskóladaga á ári. Í alþjóðlegum samanburði eru íslensk börn með mjög mikla viðveru í leikskólum. Byrja snemma á ævinni, eru lengi yfir daginn og marga daga á hverju ári. Leikskólastarfsfólk hefur áhyggjur af því að farið sé að líta á leikskólana fyrst og fremst sem þjónustustofnun fyrir foreldrana og atvinnulífið, en ekki sem þá menntastofnun sem lög um leikskóla gera ráð fyrir.

Samkvæmt Umboðsmanni barna hefur dvalartími barna í leikskólum verið að lengjast á undanförnum árum og meðalaldur barna í leikskólum færst niður, ásamt því að mörg börn þurfa að dvelja í leikskólanum sínum lengur en hefðbundið þykir að foreldrar þeirra vinni. Þau eru líka oft lengur en miðað er við í 9. gr. reglugerðar um starfsumhverfi í leikskóla.

Því blasir við að kannski hafi þjónustustig leikskólanna einfaldlega vaxið of mikið, og of hratt. Eftirspurnin eftir þjónustunni sé orðin of mikil og að leita þurfi leiða til að hægja á vextinum, til að létta á álaginu. Bæði á starfsfólkinu en ekki síst börnunum.

Álagið

Þarna er þó auðvitað ekki við foreldrana að sakast. Ástæðan fyrir því að leikskólar eru að taka á sig þetta álag, er að það er álag á fjölskyldum landsins, á okkur öllum. Atvinnulífið gerir kröfur um ákveðið vinnuframlag á hverjum degi og í hverri viku. Það er út frá því sem kröfurnar um sífellt aukið þjónustustig leikskólanna verða til.

Ef rætt er við eldri kynslóðir um hina stóru byltingu þegar konur streymdu á sínum tíma út á vinnumarkaðinn, þá kemur gjarnan í ljós að ein af lykilhugmyndunum að baki því að auka atvinnuþátttöku kvenna, var sú að þá gætu báðir foreldrar unnið, en þá styttri vinnudag og svo tekið jafnari þátt í fjölskyludlífinu. Kröfur atvinnulífsins virðast hins vegar hafa hrifsað þetta frá fjölskyldum landsins. Krafan varð því sú að í stað þess að 100% innkoma dygði til að framfleyta fjölskyldunni, þyrfti 200% innkomu, nema þá þegar annar aðilinn er með ofurlaun. Í dag dugar þó ekki einu sinni þessi 200% innkoma ekki alltaf til að framfleyta fjölskyldum. Fólk þarf að vinna enn lengur. Forsendurnar hafa brugðist og börnin sitja eftir með afleiðingarnar. Fæðingarorlof er síðan ekki nógu langt sem veldur enn meira álagi.

Kerfin eru ekki að tala nægilega vel saman og það er að bitna á börnunum; leikskólarnir og börnin eru látin taka endalaust við álaginu. Hér þarf að hafa kjark til að skoða kerfin heildstætt og ráðast að rót vandans. Við þurfum að ganga í það að setja heilbrigðan ramma í þágu velferðar og hagsmuna barnanna sem innifelur ríki og sveitarfélög, atvinnulífið, leikskólana og dagforeldra.

Styttri vinnuvika, minna álag á alla

Lausn sem ræðst að rót vandans og léttir álaginu af öllum, foreldrum, kennurum og börnum,i felst í því að stytta vinnuvikuna. Tilraunir hafa verið gerðar með styttingu vinnuvikunnar, m.a hjá Reykjavíkurborg, Hugsmiðjunni og Hjallastefnunni og hefur það gefið góða raun. Margar rannsóknir eru til sem styðja við þá hugmynd að samfélög hugi að því að endurskoða vinnuframlag einstaklinganna. Það er kominn tími til að við sem samfélag metum börnin okkar að verðleikum og sinnum þeim af alúð og nærgætni. Vanræksla barna kallar á stærri og verri samfélagsvandræði í framtíðinni. Vont og illa launað starfsumhverfi þeirra sem sjá um börnin er vanvirðing við börnin! Til þess að laga þetta þarf hins vegar að skoða kerfið í heild sinni, ekki bara bæta stöðugt í og ætlast til þess að leikskólarnir og fjölskyldurnar taki endalaust við álaginu. Leitum frekar leiða til að létta því af öllum. Við Píratar köllum eftir því að atvinnulífið axli hér ábyrgð í þágu velferðar barnanna og fjölskyldna þeirra. Þorum að hugsa út fyrir kassann!