Fyrir lið­lega ári skrifaði ég stutta grein með myndum um hættu­legt mal­bik á hring­torgum á Vestur­lands­veginum á vefinn bila­blogg.is og kom í kjöl­farið í við­tal í Sjón­varps­fréttum um þetta mál.
Einnig kom Sigur­jón M. Egils­son rit­stjóri í við­tal í Sjón­varpinu í fram­haldinu, en hann er einn þeirra sem hefur slasast vegna þessa hála mal­biks.

Á Vestur­lands­veginum frá Reykja­vík vestur og norður um land eru nokkur hring­torg og þessi hring­torg eru stór­hættu­leg – og það er vegna þess hve hál þau eru. Þau eru lang­hættu­legust í bleytu en „hálkan“ er einnig til staðar í þurru veðri.

Það er yfir­borð mal­biksins sem skapar þessa hættu. Hér hefur veg­haldarinn (Vega­gerðin) valið að setja sterkara mal­bik, væntan­lega með í­blönduðum er­lendum stein­efnum til að gera mal­bikið endingar­betra, en það eru hluti stein­efnanna sem mynda þessa hættu – og þar með hálku.

Flest þekkjum við að hafa farið í fjöru og fundið litla steina sem sjórinn og sandurinn í fjörunni er búinn að slípa yfir­borðið svo vel að það er nánast slétt og gljáandi. Það er ein­mitt þetta sem hefur gerst í yfir­borði mal­biksins í þessum tveimur hring­torgum. Ljósu steinarnir í mal­bikinu eru eins og vel slípaðir fjöru­steinar, og veita því lítið við­nám þegar hjól­barði beygir á þessu mal­biki. Ó­hreinindi og hugsan­lega nokkrir olíu­dropar sem leka úr bílum auka enn á hættuna.

Það er greini­legt þessa dagana að veg­haldarinn er búinn að kyngja þeirri stað­reynd að þessi hring­torg eru bein­línis hættu­leg vegna hálku og búið er að setja fjölda af við­vörunar­skiltum sem vara við hálku! En hér verður að grípa til varan­legra ráð­stafana áður en al­vöru „vetrar­hálka“ fer að stinga sér niður.

Hált mal­bik

Eftir að ég skrifaði þessa stuttu grein á bila­blogg.is þá fóru að berast fréttir að gölluðu mal­biki, sem er engu líkt því sem við eigum að venjast, renni­slétt og hált vegna þess að olían/bikið stígur upp á yfir­borðið og myndar hálku – jafnt í bleytu og þurru veðri.

Ekkert var gert í þessu og því miður varð hryggi­legt bana­slys þars em hjón létust í á­rekstri við hús­bíl þegar þau óku á mótor­hjólum inn á þetta nýja mal­bik á Kjalar­nesinu.
Í fram­haldi af þessu bana­slysi fór í gang mikil um­ræða á sam­fé­lags­g­miðlum, einkum meðal mótor­hjóla­fólks og það sama mátti heyra í öllum þessum at­huga­semdum: Fólk krafðist lag­færinga.

Niður­staðan á þessu varð að Vegar­gerðin varð að viður­kenna að mal­bikið væri ekki í lagi og kaflinn á Kjalar­nesi og á nokkrum öðrum stöðum voru fræstir upp og á þá lagt nýtt mal­bik.

Eftir stendur langur kafli á Reykja­nes­braut við Vífil­staði – en þar lætur Vega­gerðin duga að setja bara upp við­vörunar­skilti um hálku og lækkar öku­hraðann niður í 50 km/klst

Nokkuð sér­stakt við­horf em­bættis­manns

Í fram­haldi af um­ræðum á sam­fé­lags­miðlum um þetta mál setti ég þetta inn á Face­book:

„Var að lesa svör dýra­læknisins sem varð vega­mála­stjóri við van­trausti sem Sniglarnir lýstu yfir fyrir nokkrum dögum. Þar gerir hún lítið úr á­hyggjum vegna vegar­kafla sem eru hálir og ár­lega eru sett upp skilti sem vara við hálku á þessum stöðum.

Svar vega­mála­stjórans er: "Við vitum líka alveg að nýtt mal­bik er hálla en gamalt mal­bik og það er erfitt að gera eitt­hvað við því" - "halló!" eins og vinur minn heitinn Gissur Sigurðs­son sagði gjarnan þegar honum of­bauð. Þetta á nefni­lega ekki að­eins við um "nýtt" mal­bik!!!

Hring­torgin á Vestur­lands­veginum sem hafa verið stór­hættu­leg vegna hálku og valdið slysum eru ekki með "nýju" mal­biki. Þau eru orðin nokkurra ára. Þau voru orðin það þegar ég skrifaði grein á síðuna mína, bila­blogg.is undir nafninu "Hættu­legasta mal­bikið á landinu?" í septem­ber fyrir ári síðan og kom í fram­haldinu í við­tal í sjón­varpinu vegna málsins.

Enn hefur engu verið breytt á þessum hring­torgum, nema við­vörunar­skiltin spretta reglu­lega upp úr grasinu við torgin eins og ár­viss njóli!
Það er greini­legt að dýra­lækningar eru ekki besti grunnurinn til að fjalla um mal­bik!“

Hvernig er staðið að þessu á hinum Norður­löndunum?

Næsta mál er að fá upp­lýsingar um það hvernig staðið er að þessu á hinum Norður­löndunum, einkum Noregi, Svíþ­jóð og Finn­landi sem glíma við svipaðar að­stæður í veður fari. Af hverju erma­l­bikið hjá þeim ekki hált! Hvernig mæla þeir gæðin og svo framvegis.