Hættið að hægja…

Þrátt fyrir áru eilífs æskufjörs og lífsgleði tekst Gísla Marteini Baldurssyni ítrekað að stuða og á föstudagskvöld þurfti hann ekki nema 15 sekúndur til þess að trylla áhyggjukórinn sem kennir sig við Orkuna okkar og berst gegn orkupakkanum á Facebook. Eftir þátt sinn var Gísli klagaður fyrir að hafa komið með brandara um orkupakkann eftir aðeins 15 sekúndur. Nokkuð ljóst að taugarnar eru vel þandar þegar fimmaur um að vonandi væru allir búnir að pakka fyrir páskana, „þó vonandi ekki þriðja orkupakka“ kallar fram hörð viðbrögð og samsæriskenningar.

… brandarinn er búinn

Enn súrnaði grínið á RÚV í Silfrinu þegar Þórlindur Kjartansson svaraði fyrir umtalaða og víðlesna grein sína í Fréttablaði föstudagsins. Þar tuskaði þessi annars dagfarsprúði pistlahöfundur andstæðinga orkupakkans til fyrir að grafa undan viðskiptafrelsi og réttarríkinu. Þórlindur dró hvergi úr og var greinilega ekki hlátur í huga. Mættur var einnig Stefán Pálsson sem er fullkomlega öndverður við Þórlind á pólitíska ásnum. Hann afgreiddi orkupakkafárið með ísköldu háði og drap þannig brandarann endanlega.