Samkvæmt nýlegri könnun er fjórðungur þjóðarinnar haldinn kvíða vegna Covid. Ekki er að búast við öðru en að langvarandi höft og lokanir hafi áhrif á andlega heilsu landsmanna, svo ekki sé talað um hræðsluáróðurinn sem stöðugt dynur yfir og dregur mátt úr mörgum.

Nú þegar Íslendingar eiga nánast heimsmet í bólusetningum við Covid þá ætti frelsi landsmanna að vera í samræmi við það. Svo er þó alls ekki. Meðan grímuskylda er afnumin hjá öðrum Norðurlandaþjóðum er henni viðhaldið hér á landi. Á fótboltavöllum koma þar þúsundir saman án grímu meðan hér á landi eru fjöldatakmarkanir og grímuskylda undir berum himni. Hér á landi er ætlast til að fólk sitji með grímur í leikhúsi og á tónleikum án hlés. Hver er eiginlega skemmtunin í því að sitja í sal með fólki þar sem allir eru með grímu og líta út eins og zombíur? Samt eru einhverjir sem láta bjóða sér þetta. Aðrir kjósa fremur að sitja heima og dunda við að skipuleggja menningarferðir eða ferð á knattspyrnuleik til erlendra borga þar sem frelsið býr.

Þegar búið var að bólusetja stóran hluta dönsku þjóðarinnar sagði ferðamálaráðherra Danmerkur að nú væri verið að snúa aftur til hins hefðbundna lífs. Hér á landi fór allt í baklás vegna smita sem hafa ekki gert að verkum að aragrúi fólks er að berjast við alvarleg veikindi. Staðreyndin er sú að eftir bólusetningar veikjast fáir illa og enn eru engin dauðsföll. Hér ríkir ekki hættuástand.

Ef það væri svo að heimurinn hefði fram að þessu verið laus við veikindi og dauða þá væri allt þetta fár vegna smita ofur skiljanlegt. Sjúkdómar og dauði hafa hins vegar alltaf fylgt mannkyninu og munu gera áfram. Það liggur í augum uppi að bólusetningar duga ekki til að breyta þeirri staðreynd. Covid tekur sinn toll eins og aðrar pestir, en ekki er hægt að skella öllu endalaust í lás þess vegna.

Ótal sinnum hefur verið tuggið ofan í þjóðina að hún verði að lifa með Covid. En um leið og smit greinast þá eru viðvaranir gefnar út, fjöldinn allur af einkennalausu fólki dæmt í sóttkví dögum saman og fjöldatakmörkunum og grímuskyldu er viðhaldið.

Það er nokkuð langt síðan sóttvarnayfirvöld og ríkisstjórn hafa sent þau skilaboð til þjóðarinnar að stefnt sé að eðlilegu lífi í landinu. Það er nánast eins og yfirvöld séu farin að líta á óeðlilegt ástand sem eðlilegt og ætlist beinlínis til að aðrir séu sömu skoðunar.

Einmitt þar býr hættan.