Það fylgja því kostir og gallar að lifa á eyju án landamæra. Ávinningurinn er að vera laus undan landamerkjadeilum við aðrar þjóðir. Á hinn bóginn er gallinn sá að eyjarskeggjar eru ekki jafn vanir því og flestar aðrar þjóðir álfunnar að lifa á meðal annarra menningarheima og deila með þeim ólíkri sýn á lífið og tilveruna.

En þegar einangruð þjóð úti í ysta hafi lifir ekki aðeins aldirnar af í náttúrunnar villtustu veðrum og hamagangi í iðrum hennar, heldur finnur fyrir því að einhver utan úr meginlöndunum komi og ræni hana ýmist völdum, eða auðlendum, að ekki sé talað um fólkið sjálft, þá er í sjálfu sér eðlilegt að hún fari að þróa með sér einkenni útnárahugsunar og nesjamennsku af nægjusömustu sort.

Og kannski er þar komið þjóðereinkennið.

Aldagamalt stoltið yfir sjálfsþurftarbúskapnum er Íslendingum í blóð borið. Einkunnarorð þjóðarinnar, svo til uppsöfnuð af reynslunnar býsn, eru: Þetta reddast. Engin tvö orð lýsa líklega Íslendingum betur. En það skal heldur enginn annar redda henni, aðeins hún sjálf, af því að við getum þetta, ein og sér, en til vara sem þjóð.

Það er með þessum orðum sem landsmenn, margir hverjir, jafnvel flestir hverjir, horfa til annarra landa. Þeir hafa ekkert þaðan að hafa. Sú afstaða er landsmönnum inngróin, ættuð úr fögrum fyrirheitum samvinnuhreyfingarinnar sem fólust í því að ef varan fékkst ekki í kaupfélaginu þyrftu menn ekki á henni að halda.

Nýfengið sjálfstæðið og litlu eldra fullveldið var og er eftir atvikum svo hátimbrað að samskipti við aðrar þjóðir þykja í besta falli grunsamleg, en örugglega að einhverju leyti til ama og óhagræðis.

Þess vegna hafa Íslendingar, fyrr og síðar, barist gegn innflutningi. Þeim hefur fundist sjálfsagt mál að flytja vörur út – og hafa löngum verið háðir því – en innflutningur hefur ávallt verið litinn hornauga í landi elds og ísa.

Það er í þessu ljósi – raunar mjög skæru – sem verðugt er að velta fyrir sér hvort Íslendingar hefðu farið sömu leið á viðsjárverðum tímum og Finnar og Svíar. Hefðu eyjarskeggjar hér á ystu mörkum álfunnar sótt um aðild að Nató á þessu árans stríðsári í álfunni ef þeim hefði ekki verið þröngvað í það á sínum tíma?

Svarið er líklega nei. Við getum varið okkur sjálf.