Hér með kallar Fjársýsla ríkisins og Fjármálaráðuneytið eftir því að birgjar hætti að nota eindaga á reikningum og bankakröfum í öllum almennum viðskiptum og noti eingöngu gjalddaga.

Eindagi er sér íslenskt fyrirbæri sem á uppruna sinn frá fyrstu dögum tölvuvæðingar. Ástæðan var sú að það gat tekið nokkra daga að miðla upplýsingum milli tölvukerfa banka og annara viðskiptaaðila um greiðslur og eindaginn var því búinn til, til upplýsinga um hve lengi viðskiptaaðili væri tilbúinn til að fresta vaxtareikningi, umfram gjalddaga. Tilgangurinn með eindaga var aldrei að heimila greiðanda að fresta greiðslu fram yfir gjalddaga.

Gjalddagi á sér styrka stoð í lögum og er hann sú dagsetning sem aðilar hafa komist að samkomulagi um að sé sá dagur þegar reikningur eða skuld skuli greidd. Eindagi á sér aftur á móti enga stoð í lögum og var á sínum tíma leið til að fresta útreikningi dráttarvaxta og innheimtuaðgerða.


Eindagi er oft túlkaður sem viðbótar greiðslufrestur, hann er ruglandi fyrir neytendur og skapar misskilning og getur valdið greiðendum óþarfa kostnaði. Eindagi er í dag óþarfur og óeðlilegir viðskiptahættir, hvergi annars staðar eru sambærilegir viðskiptahættir notaðir með jafn almennum hætti. Í okkar samtíma eru upplýsingar sendar milli tölvukerfa á hraða ljóssins og greiðsla í einum banka skilar sér til annars banka á örskotstíma. Því eru upphaflegar ástæður fyrir eindaga löngu farnar. En eins og oft vill verða lifa lausnir á vandamálum löngu eftir að vandamálið er farið og verða svo sjálfar vandamál í framhaldinu. Eindagi er gott dæmi um slíkt.

Þess vegna er hér með kallað eftir því að viðskiptaaðilar hætti að setja eindaga á reikninga, gefi þá út með gjalddaga eingöngu og skuld vaxtareiknuð frá gjalddaga. Gjalddagi skal þá endurspegla umsamin gjaldfrest eða eðlilegan frest sem þykir hæfilegur í viðskiptum milli aðila. Kaupandi mun þá einfaldlega greiða reikninga á gjalddaga eða (mögulega) greiða dráttarvexti frá þeim degi.

Höfundur er sérfræðingur hjá Fjársýslu ríkisins..