Um tíma fór maður vart í matarboð án þess að verða fyrir barðinu á ástríðufullum umræðum um hægeldað kjöt. Merkilegur tími. Það gafst eiginlega ekki tóm til að ræða neitt annað.

Hver reynslusagan rak aðra og maður fylltist aðdáun yfir öllum þessum fullmótuðu skoðunum á efninu.

Ég sökkti mér ekki sérlega djúpt í þetta en ef ég man rétt þá felst snilldin í því að reka rafstaut ofan í bala fullan af vatni. Þar sem fyrir er hrátt kjöt í lofttæmdum poka.

Og nú koma töfrarnir. Stauturinn hækkar hitastigið svo löturhægt í átt að suðu að kjötið fattar ekki að það er verið að elda það. Þessa meintu snilld hef ég reyndar aldrei skilið en hvað um það.

Mér finnst alltaf best að líkja þessu við manninn sem situr grunlaus að snæðingi í Perlunni, en fattar svo allt í einu að hann hefur snúist í hálfhring og Vatnsmýrin er horfin. Þannig virka hægfara breytingar. Þetta skilja allir.

En svo kemur það sem er svo skrítið. Það er eins og allir missi áhugann á þessum kröftum hækkandi hitastigs í öðru mun mikilvægara samhengi. Það samhengi heitir hlýnun jarðar.

Sömu kraftar. Sama lögmál. Nema, í tilfelli loftslagsbreytinga erum við bæði kjötið í pokanum og stauturinn sem stýrir hitanum. Allt ferlið er á okkar valdi. Við sitjum í súpunni. Bókstaflega.

Kannski finnst okkur of erfitt að tala um þetta. Sumir kjósa meira að segja að afneita þessu. En staðreyndin er samt sú að þetta er ekki eitthvað mál sem getur beðið þangað til við orkum að takast á við það.

Það ganga yfir okkur krampabylgjur. Hiti yfir fjörutíu gráðum. Skógareldar um allar jarðir og stórfljót að þorna upp. Rafstauturinn er löngu farinn að bíta og hann bítur fast. Samt höldum við áfram að spæna upp kjarnhitann.

Eða erum við kannski komin að ákveðnum krossgötum í þessu ástar- og haturssambandi okkar á hægeldun? Nú þegar viðvaranir okkar fremstu vísindamanna eru farnar að rætast.

Ef það er raunin þá stöndum við í raun frammi fyrir tveimur kostum.

Við getum dregið hraðar úr losun og gripið strax til aðgerða. Við þurfum bara að vakna.

Svo er það hinn kosturinn. Við getum líka setið hérna áfram í balanum. Eins og hægeldað kjöt í poka. Kvartandi yfir kjarnhitanum sem við sjálf stjórnum.

Spurningin er í raun hvort við elskum hægeldun nógu mikið til að sjóða okkur sjálf. n