Linda vinkona mín vinnur á Bryggjunni í Grindavík. Þegar stóri skjálftinn reið þar yfir um helgina óttaðist hún um líf sitt og þeirra ferðamanna sem þar voru staddir. Eins og þú hefur séð í fréttum hrundi allt lauslegt og lá brotið og bramlað um öll gólf. Húsið stendur þó og stenst líklega talsvert stærri skjálfta en þennan þótt ég geri ekki lítið úr upplifun vinkonu minnar af atburðinum. Það er þó ekki sjálfgefið að lifa af náttúruhamfarir og víða í heiminum hefðu mannvirki hrunið við skjálfta sem þennan.

Eins og þér er kunnugt um, sem fagráðherra mannvirkjamála, tökum við upp evrópska staðla hér á landi, sem segja til um þolhönnun, meðal annars vegna jarðskjálftaálags. Okkar bestu sérfræðingar skrifa svo íslenska viðauka við þá, sem herða á kröfum vegna séríslenskra aðstæðna. Þeir tryggja með öðrum orðum að hús eru byggð til að standast jarðskjálftaálag.

Undanfarin tvö ár hefur staðið yfir endurskoðun 58 evrópskra þolhönnunarstaðla, þar af sex sem varða jarðskjálfta. Hún felur í sér kröfu um endurskoðun íslensku þjóðarviðaukanna líka til að tryggja að nýjasta þekking okkar eigin sérfræðinga rati inn í kröfukafla við þolhönnun íslenskra mannvirkja. Staðlaráð Íslands fer með verkefnið samkvæmt lögum. Það er hins vegar orðið verulegt áhyggjuefni hvað því hefur verið tekið af mikilli léttúð í ráðuneytum mannvirkjamála. Rúmum tveimur árum eftir að vinna hófst við verkefnið hefur fjármögnun verkefnastjórnar við það ekki verið tryggð. Eingöngu er um að ræða brot kostnaðar við verkefnið því sérfræðingar og fyrirtæki þeirra gefa vinnu sína og sérfræðiþekkingu. Það er eðli staðlastarfs.

Að óbreyttu breytist því íslensk löggjöf þannig á komandi misserum að hér taka sjálfkrafa gildi grunnkröfur um þolhönnun mannvirkja án séríslenskra krafna sem varða til dæmis jarðskjálfta, snjóálag eða vindálag. Þá getum við Linda og aðrar ömmur þessa lands farið að biðja bænirnar okkar.