Páskar eru í nánd, en ekki með sínu hefðbundna sniði því prestar fá ekki að messa í kirkjum fyrir framan kirkjugesti. Nú eru einfaldlega tímar þar sem talið er að heppilegast sé fyrir fólk að halda sig fjarri öðrum. Slíkt er vitanlega ekki uppskrift að andlegri velsæld því maðurinn þarf nauðsynlega á nánd við aðra að halda. En ekki er allt fengið í þessari veröld og líta má á ástand eins og þetta sem reynslutíma þar sem gott er að efla með sér þolgæði og átta sig um leið á því hvað skiptir raunverulega máli í lífinu. Páskar eru einmitt tíminn þar sem gott er að hugleiða og nóg næði ætti að vera til þess þetta árið um leið og páskaboðskapurinn er móttekinn.

Fólk mun ekki streyma í kirkjur um þessa páska. Nútímapresturinn lætur þó ekki sóttvarnaaðgerðir hefta sig í því að koma boðskap páskanna til skila. Hann er hugmyndaríkur og grípur til þess að nýta nútímatækni til að tengjast söfnuði sínum. Það er vitanlega hið besta mál. Staðreyndin er þó sú að manneskjan þarf alls enga tækni til að ná sambandi við guðdóminn. Þar er vilji allt sem þarf. Guðdómurinn er alls staðar og mannkynið ætti að gera meira af því að leitast við að ná sambandi við hann. Það myndi leiða margt gott af sér. Gera mannkynið umburðarlyndara, hógværara og auðmjúkara en það er. Ekki veitir af.

Helgi páskanna fer fram hjá mörgum á tímum þar sem þjóðkirkjan á erfitt uppdráttar. Í huga of margra eru páskar einungis enn ein áthátíðin þar sem allt er lagt upp úr því að gera vel við sig og þá er lítt hugað að hinum kristna boðskap. Það má jafnvel halda því fram að það sé í tísku að gera lítið úr kristinni kirkju og láta eins og prestar landsins skipti engu máli. Þá er fussað endalaust yfir þjóðkirkjunni og þulið drýgindalega upp hversu margir segja sig úr henni á hverju ári. Þjónar kirkjunnar eiga ekki að taka þetta raus nærri sér, þeir eiga að vera staðfastari í trúnni en svo. Sjálfir hljóta þeir að átta sig á því að guðdómurinn er ekki einungis í kirkjum, hann er allt í kringum okkur. Þannig er einkar auðvelt að finna hann. Hann má til dæmis auðveldlega finna í stórfengilegri tónlist sem tíminn fær ekki eytt.

Það er ekki hægt að hafna Bach og passíum hans eða Messíasi Händels eða Sjö orðum Krists á krossinum eftir Haydn svo einungis örfá verk séu nefnd eftir tónskáld þar sem almættið er hyllt. Er virkilega einhver sem getur hlustað á fegurstu verk Mozarts án þess að finnast hann hafa náð sambandi við guðdóminn? Einnig mætti nefna nöfn ótal listmálara sem hafa minnt á páskaboðskapinn í verkum sínum og þannig lagt sitt af mörkum til að styrkja trúarvitund svo margra. Ekki má svo gleyma hinu fullkomna sköpunarverki, sem er náttúran sjálf – það þarf einungis að horfa upp í himininn eða út á hafið til að skynja guðdóminn.

Guðdómurinn verður einfaldlega ekki kveðinn í kútinn. Hann er alls staðar og er svo sannarlega eilífur.