Um síðustu helgi var flugvél Ryanair, sem flaug frá Grikklandi til Litháen, þvinguð til lendingar í Hvíta-Rússlandi. Um borð í vélinni var hvítrússneski blaðamaðurinn Roman Protasevich, sem fjallað hefur gagnrýnið um þarlend stjórnvöld. Var Protasevich leiddur út og handtekinn af hvítrússnesku lögreglunni áður en vélinni var leyft að halda för sinni áfram.

Uppátæki hvítrússneskra yfirvalda olli hörðum viðbrögðum. Evrópusambandið hyggst beita Hvíta-Rússland refsiaðgerðum. Atlantshafsbandalagið krafðist þess að blaðamaðurinn yrði tafarlaust látinn laus. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, fordæmdi framferðið og sagði það aðför að tjáningarfrelsi og mannréttindum. Sagði Guðlaugur mikilvægt að „alþjóðasamfélagið sendi skýr skilaboð“ því að „engin viðbrögð senda skilaboð um að þetta sé ásættanlegt og hafi engar afleiðingar í för með sér. Ef það er gert er hætt við því að þetta haldi áfram og menn gangi ennþá lengra.“

Starfsskilyrði blaðamanna í Evrópu fara versnandi. Samtökin Blaðamenn án landamæra lýstu yfir áhyggjum af ástandinu í síðasta mánuði í kjölfar þess að gríski blaðamaðurinn Giorgos Karaivaz var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt. Hann er fjórði blaðamaðurinn sem myrtur er í Evrópu á síðustu fimm árum.

„Frjáls fjölmiðlun er ekki aðeins mikilvæg lýðræðinu, hún er lýðræðið,“ er haft eftir fréttamanninum Walter Cronkite. Fæstum dylst mikilvægi blaðamanna (öðrum en Brynjari Níelssyni). Blaðamenn án landamæra telja að ofsóknir á hendur blaðamönnum í Kína hafi átt þátt í kórónaveirufaraldrinum. Við upphaf hans bældu kínversk yfirvöld fréttir um vírusinn og handtóku uppljóstrara sem vöruðu við ástandinu, þar á meðal lækninn Li Wenliang sem deildi upplýsingum um nýjan, bráðsmitandi vírus með umheiminum í desember 2019 en lést sjálfur úr COVID-19 nokkrum mánuðum síðar. „Hefði fjölmiðlafrelsi ríkt í Kína hefði kannski verið hægt að koma í veg fyrir heimsfaraldur,“ sagði fulltrúi samtakanna.

Salt í sárið

Nýverið komst upp um skipulagðar aðgerðir sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja til að þagga niður í blaðamönnum. Sérstök „skæruliðadeild“ á vegum fyrirtækisins stundar njósnir og skipulagðar árásir á blaðamenn með það að markmiði að hræða þá og aðra til hlýðni. Sú innsýn sem landsmenn hafa fengið undanfarna viku í innra líf almannatengla og lögfræðinga Samherja – á yfirborðinu sitja þeir gráklæddir fyrir framan tölvuna en í huganum fara þeir með hlutverk í nýjustu Bond myndinni „Salt í sárið“ þar sem Þorbjörn Þórðarson leysir af hólmi Daniel Craig – væri fyndin ef málið væri ekki svona alvarlegt.

Ísland féll nýverið um eitt sæti á alþjóðlegum lista yfir fjölmiðlafrelsi og situr nú í því sextánda. Er þetta fjórða árið í röð sem Ísland fellur niður á listanum. Herferð Samherja gegn blaðamönnum er nefnd sem ein ástæða þess að Ísland heldur áfram að falla.

Hvernig stendur á því að stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Íslands kemst upp með að sýna frjálsri fjölmiðlun álíka lítilsvirðingu og Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, sem gjarnan er kallaður „síðast einræðisherra Evrópu“? Guðlaugur Þór Þórðarson veit svarið.

Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við ásökunum um fólskubrögð Samherja á Íslandi, í Namibíu og víðar hafa verið lítil sem engin. „Engin viðbrögð senda skilaboð um að þetta sé ásættanlegt og hafi engar afleiðingar í för með sér,“ sagði Guðlaugur Þór um atlögu Hvítrússa að blaðamanni. „Ef það er gert er hætt við því að þetta haldi áfram og menn gangi ennþá lengra.“

Samherji gengur æ lengra í atlögu sinni að frjálsri fjölmiðlun. Það væri óskandi að íslenskt ráðafólk léti sig íslenskt tjáningarfrelsi jafnmiklu varða og tjáningarfrelsi í fjarlægum löndum.